Reikna má með að til lokana gæti komið á vegum landsins með skömmum fyrirvara á morgun. Ökumenn eru hvattir til að fylgjast vel með færð og sýna fyllstu aðgáð og varkárni ef ekið er á milli landshluta.
Þetta segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Gular viðvaranir eru byrjaðar að taka gildi á landinu og munu vara fram eftir þriðjudegi. Á morgun verða viðvaranirnar um allt land og eru töluverðar líkur á samgöngutruflunum. Reikna má með hvassviðri og ofankomu, slyddu eða snjókomu og hálku til fjalla.
„Vegna veðurs gæti komið til lokana á vegum með skömmum fyrirvara. Ökumenn eru hvattir til að fylgjast mjög vel með færð og veðri ef ekið er á milli landshluta og sýna fyllstu aðgát og varkárni. Akstursskilyrði geta versnað verulega, einkum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og eru ekki útbúin miðað við aðstæður. Allar upplýsingar um veður og færð eru á umferdin.is og vedur.is,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Segir þar enn fremur að Vegagerðin sé í viðbragðsstöðu og að búið sé að gera ráðstafanir til að hreinsa vegi eftir þörfum.
„Viðvörunin nær til Norðurlands vestra, Norðurlands eystra, Austfjarða og hálendisins. Aðfaranótt þriðjudags er líklegt að það snjói á fjallvegum frá Vestfjörðum og austur á firði.
Norðan stormur verður á Suðausturlandi en vindasamt á Suðvesturlandi. Hvasst verður á sunnanverðu Kjalarnesi og upp í Borgarnes, í uppsveitum, á sunnanverðu Reykjanesi og undir Eyjafjöllum og í kringum Skaftafell.“
Kemur fram í tilkynningunni að um austanvert landið verði óvissustig og gæti komið til lokana á leiðum frá Kirkjubæjarklaustri að Höfn og frá Höfn austur að Þvottárskriðum frá klukkan 5-15 á morgun.
Jafnframt gæti leið frá Markarfljóti að Kirkjubæjarklaustri verið lokað frá klukkan 6-12.