Óveðrið sem spáð er í nótt og á morgun gæti haft áhrif á flutningskerfi Landsnets. Sviptivindar gætu valdið miklu álagi á Byggðalínuna á Prestbakka að Hólum, þá einkum á svæðum eins og Lómagnúpi, Öræfum og Hornafirði.
Þetta segir í tilkynningu frá Landsneti á Facebook.
Segir þar enn fremur að slydduísing gæti hlaðist á Kröfulínur 2 og 3, sem og Vopnafjarðarlínu og Seyðisfjarðarlínu, á hæðum yfir 300 metra.
Þá minnir fyrirtækið jafnframt á að starfsfólk sé á vaktinni og að upplýsingar um truflanir muni berast á heimasíðu þess og í Landsnetsappinu.