Gæsluvarðhald yfir konu sem er grunuð um aðild að andláti föður síns í Súlunesi á Arnarnesi í apríl síðastliðnum rennur út á morgun og að sögn Ævars Pálma Pálmasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, verður tekin ákvörðun á morgun hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir konunni.
„Það er farið að síga á seinni hlutann á þessari rannsókn og það má segja að hún sé á lokametrunum,“ segir Ævar Pálmi við mbl.is.
Konan, sem er sú eina sem hefur stöðu sakbornings í málinu, hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 16. apríl.
Maðurinn sem lést hét Hans Roland Löf. Hann var tannsmiður og var fæddur árið 1945. Hann var búsettur í Súlunesi ásamt eiginkonu sinni og dóttur þeirra, Margréti Höllu Hansdóttur, sem situr í gæsluvarðhaldi.
Ævar Pálmi vill ekki tjá sig um það að svo stöddu hvort konan hafi neitað sök í málinu en RÚV greindi frá því í síðasta mánuði að hún hefði neitað sök.