Karl Emil Wernerson, einn umsvifamesti fjárfestir landsins fyrir efnahagshrunið, neitaði sök við þingfestingu sakamáls gegn honum í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Hann er ákærður fyrir skilasvik.
Gyða Hjartardóttir, eiginkona Karls, og Jón Hilmar Karlsson, sonur Karls, voru einnig ákærð í málinu fyrir peningaþvætti. Þau neituðu einnig sök.
Karl, Gyða og Jón voru öll viðstödd þingsetninguna. Málið verður tekið fyrir 1. september næstkomandi.
Málið tengist gjaldþroti Karls árið 2018 og því hvernig hann er sagður hafa komið dýrmætum eignum undan skiptastjóra þrotabúsins. Á meðal eigna sem um ræðir eru listaverk, fasteignir og félög skráð erlendis.
Samkvæmt saksóknara hafði Karl haft í umsjá sinni verðmætar eignir eftir að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Var hann sagður hafa afsalað þeim til einstaklinga og félaga sem tengjast honum persónulega eða fjárhagslega.
Þar á meðal voru einbýlishús við Blikanes, sumarhús á Ítalíu og Mercedes Benz-bifreið.
Eignirnar voru fluttar yfir á félagið Faxar ehf., dótturfélag Faxa ehf., sem var í eigu Toska ehf. Karl afsalaði Toska til sonar síns sem tók þannig óbeint við eignunum. Meðal eigna þessara félaga var fyrirtækið Lyf og heilsa.
Sonur Karls, Jón Hilmar Karlsson, er ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa tekið við félaginu Toska ehf., sem varð eigandi lúxusbifreiða og fasteigna, þegar faðir hans var formlega gjaldþrota. Samkvæmt dómi Landsréttar var ráðstöfuninni rift og sonurinn dæmdur til að greiða á þriðja milljarð króna til þrotabúsins.
Gyða, eiginkona Karls, er sömuleiðis ákærð fyrir peningaþvætti. Hún tók við eignarhaldi á félaginu Nordic Pharma Investment árið 2018, en það félag var skráð á Tortóla.