Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn, segir það mikil vonbrigði að tillaga um stofnun stýrihóps með fulltrúum allra flokka í borgarstjórn til þess að móta framtíðarsýn um Heiðmörk hafi verið vísað frá.
Tvær tillögur er varða Heiðmörk voru lagðar fram á fundi borgarstjórnar í dag. Önnur þeirra af Sjálfstæðisflokknum og hin af Framsóknarflokknum. Sitjandi meirihluti í borgarstjórn kaus einróma með því að vísa tillögum tveimur frá.
Veitur hafa lagt fram tillögu þess efnis að takmarka bílaumferð verulega í Heiðmörk til þess að forðast að vatnsverndarsvæðið verði fyrir tjóni.
„Það eru mikil vonbrigði að meirihlutinn treysti sér ekki í þá vinnu sem er fram undan. Það þarf að taka pólitíska forystu í þessu máli. Þetta er stærsta, elsta og vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins og ef niðurstaðan er sú að bílaumferð verði bönnuð um Heiðmörk er það alveg ljóst að meginþorri þeirra sem sækja svæðið núna munu ekki gera það lengur,“ segir Einar í samtali við mbl.is.
Að sögn Einars er mikilvægt að hefja þessa vinnu í því skyni að leita lausna og greina málið.
„Því hefur verið haldið fram að hægt sé að sækja vatn á öðrum stað, í Vatnsendakrika, og færa þá vatnsupptökusvæðið þangað. Það þarf að fjárhagslega meta slíka aðgerð og gera ákveðið áhættumat en sá hópur sem er núna með málið hefur ekki umboð til þess að fara í slíka vinnu.“
Að sögn Einars hefði verið hægt að nýta stýrihópinn til þess að fara í ítarlegt samstarf við almenning um framtíð Heiðmerkur.
„Þetta hefði verið hægt að gera með skoðanakönnun, borgarafundi eða hvað annað sem menn vilja gera til þess að heyra skoðanir almennings á málinu og finna í kjölfarið milliveg í stað þess að láta ýtrustu kröfur Veitna ráða för,“ segir Einar.
„Vatnsverndin trompar allt annað á endanum. Ég er þeirrar skoðunar að aðgangur að hreinu heilnæmu vatni fyrir Reykvíkinga vegur þyngra á endanum en mér finnst að kjörnir fulltrúar þurfi að vinna þessu vinnu. Hugsanlega verða tillögur Veitna ofan á en við vitum það ekki,“ bætir Einar við að lokum.