Fundur lögreglunar á höfuðborgarsvæðinu með skipuleggjendum fermingarveislu FM95BLÖ sem haldin var í Laugardalshöll á laugardaginn, er fyrirhugaður í dag.
Í samtali við mbl.is segir Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn að farið verði yfir framkvæmd tónleikana, m.a. atvikin sem komu upp og hvað hefði mátt gera til að koma í veg fyrir þau.
Mikill fjöldi fólks sótti tónleikana og skapaðist mikill troðningur eins og mbl.is hefur greint frá.
Fyrir viðburði sem þessa gefur sýslumaður út svokallað tækifærisleyfi en fyrir umrædda tónleika var útgefið leyfi fyrir átta þúsund manns. Óljóst er hversu margir gestir sóttu tónleikana.
Spurður hvort lögreglan telji fleiri en átta þúsund gesti hafa sótt tónleikana segir Ásmundur lögregluna hafa kallað eftir þeim gögnum og málið verði skoðað, en ef brotið er gegn útgefnu tækifærisleyfi geta verið viðurlög við því, t.d. fjársektir.