Ísabella Auður Nótt Matthíasdóttir varð dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja í fjölmennasta útskriftarárgangi skólans frá upphafi. Samtals hlaut hún styrki upp á 130.000 krónur og verðlaun og viðurkenningar í ensku, sálfræði og þýsku.
Ísabella var á félagsvísindabraut og lagði þar áherslu á sálfræði. „Ég byrjaði á raunvísindabraut en færði mig yfir því mér fannst líffræðin svo leiðinleg,“ segir Ísabella.
„Ég stefndi fyrst á að verða geðlæknir, en síðan fannst mér námsefnið svo leiðinlegt að ég ákvað að verða sálfræðingur í staðinn.“
Í vetur stefnir Ísabella á að vinna á Keflavíkurflugvelli hjá Europe Car, en næsta haust liggur leiðin í háskóla. „Kannski fer ég til Danmerkur, kannski verð ég hérna heima. Hver veit?“
Árið 2017 flutti Ísabella á milli landshorna, en fyrstu ár ævinnar bjó hún í Berufirði á Austurlandi. Alla sína menntaskólagöngu hefur hún þó verið í FS og segir kennarana hafa stutt sig vel í náminu.
„Flestir þeirra voru alveg mjög skemmtilegir og ég mun muna eftir mörgum þeirra mjög lengi.“
Utan skóla finnst Ísabellu gaman að hitta vinkonur sínar og fara með þeim á ísrúnt eða í göngutúr og á með þeim margar skemmtilegar minningar frá skólagöngunni. Vinkonurnar byrjuðu þó menntaskólagönguna á heldur óskemmtilegum atburði.
„Á busaballinu okkar tognaði ein vinkona mín eftir að önnur vinkona steig ofan á fótinn á henni og ég þurfti að fara með hana inn á sjúkraherbergið og setja plástur. Við enduðum samt einhvern veginn á því að skemmta okkur vel þetta kvöld,“ segir Ísabella.
Lok skólagöngunnar voru heldur skemmtilegri, en Ísabella segir dimmisio hafa verið með skemmtilegustu uppákomum skólagöngunnar. „Við gengum eftir Hafnargötunni í Keflavík, vorum að taka myndir með lögreglumönnum og þetta var bara mjög skemmtilegt.“