Gular veðurviðvaranir eru enn í gildi á stórum hluta landsins vegna norðan hvassviðris og mikillar rigningar á norður- og austurhelmingi landsins.
Á Suðurlandi, Faxaflóa, Austfjörðum og Suðausturlandi falla þær úr gildi á milli klukkan 6 og 10 en í kvöld á Ströndum og Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra.
Í dag verða norðan 10-18 m/s. Það verður rigning um landið norðanvert en víða slydda eða snjókoma til fjalla, sums staðar talsverð úrkoma. Hitinn þar verður á bilinu 2 til 7 stig en sunnanlands verður þurrt að kalla og hiti frá 6 til 13 stig.
Á morgun verða norðan og norðvestan 8-15 m/s. Rigning eða slydda verður með köflum á Norður- og Austurlandi, annars þurrt að mestu. Hiti breytist lítið.