Tæplega þúsund strákar og stálp í níunda bekk mættu í Háskólann í Reykjavík fyrr í dag þar sem átaksverkefnið, Strákar og stálp í háskóla, fór fram í fyrsta sinn.
Sambærilegt átaksverkefni, Stelpur stálp og tækni, hefur verið haldið í Háskólanum í Reykjavík í rúman áratug.
Rakel Guðmundsdóttir, verkefnastjóri HR, segir hafa verið ákall eftir sambærilegum viðburði fyrir stráka í ljósi lækkandi hlutfalls stráka í háskólanámi.
Háskólasamfélagið var kynnt fyrir strákum og stálpum og veitt innsýn á tækifæri sem gætu boðist að námi loknu.
„Við viljum kveikja áhuga á háskólanámi hjá strákum. Með viðburði sem þessum sýnum við drengjunum að það er möguleiki á að fara í fjölbreytt nám eftir menntaskóla,“ segir Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sviðsforseti tæknisviðs HR.
„Þetta hefur gengið vonum framar og við vonumst til að þessi viðburður sé kominn til að vera,“ segir Rakel Guðmundsdóttir.