Barn sem ítrekað hefur verið vistað á neyðarvistun meðferðarheimilisins Stuðla hefur að minnsta kosti tvisvar brotið niður hurðir á nýlega endurbyggðum herbergjum í álmunni. Hurðirnar eiga að vera sérstaklega styrktar og standast allar öryggiskröfur. Engu að síður hefur barninu, sem samkvæmt heimildum mbl.is, er frekar lítið og nett eftir aldri, tekist að brjóta þær niður.
Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, sem Stuðlar heyra undir, staðfestir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að atvik sem þetta hafi átt sér stað. Hann fullyrðir jafnframt að nýju herbergin standist öryggiskröfur, þó bregðast hafi þurft við atvikum sem upp hafi komið.
Álman sem hýsir neyðarvistun Stuðla gjöreyðilagðist í bruna í október síðastliðnum, þar sem 17 ára barn lést, og standa yfir endurbætur á þeim hluta meðferðarheimilisins. Endurbyggingu tveggja herbergja var hins vegar flýtt til að hægt væri að hætta að nota lögreglustöðina í Flatahrauni í Hafnarfirði fyrir neyðarvistun, enda það úrræði ekki talið boðlegt börnum.
Herbergin tvö voru tekin í notkun um miðjan apríl og segir Funi þau hafa reynst nokkuð vel.
„Það hafa komið atvik þar sem ákveðnir hlutir stóðust ekki öryggiskröfur en það hefur jafn harðan verið bætt úr því.“ Helsti kosturinn við að taka nýju herbergin í notkun, hafi verið að hægt var að loka úrræðinu í Flatahrauni.
Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, sögðu í samtali við mbl.is fyrr á þessu ári að nýju herbergin ættu að standast allar öryggiskröfur. Þá tóku framkvæmdir við herbergin lengri tíma en áætlað var og sú skýring gefin að uppfylla þyrfti miklar öryggiskröfur, enda um mjög sérhæfða starfsemi að ræða.
Funi segir hurðirnar sem barnið braut vera samskonar og á öruggustu deildum Landspítalans. Þær séu sérstaklega styrktar. Þrátt fyrir það hafi barninu tekist að brjóta þær niður. Við því hafi hins vegar verið brugðist.
„Valmöguleikar eru að setja stálhurðir líkt og eru í Flatahrauni en þær eru ekki hlýlegar og barnvænar. Mikið kapp hefur verið lagt á að öryggi sé tryggt en jafnframt sé gætt að því að umhverfi sé hlýlegt og barnvænt. Þetta fer ekki alltaf saman og því verið að reyna að finna jafnvægi með þetta og því ekki valið að hafa stálhurðir.“
Spurður hvort nýjar hurðir, sem eiga að standast öryggiskröfur, eigi ekki að halda þó mikið gangi á hjá skjólstæðingum, svarar Funi því játandi. Hurðirnar ættu að þola álagið
„Jú þær ættu að gera það enda var leitað til þeirra sem hafa smíðað hurðir fyrir öruggustu deildir Landspítala og eðlilega talið að þær myndu halda. Allt kom fyrir ekki og því var brugðist við því. Í starfi með skjólstæðinga neyðarvistunar gengur oft mikið á og mjög erfitt að sjá fyrir allt sem getur gerst.“
Má þá ekki draga þá ályktun að herbergin standist ekki þær öryggiskröfur sem talað var um?
„Herbergin standast öryggiskröfur þó það komi tilvik sem þarf að bregðast við,“ segir Funi.
Greint var frá því á mbl.is í síðustu viku að 14 ára drengur, sem vistaður er á Stuðlum, hafi smyglað öðru barni inn á meðferðarheimilið án þess að nokkur yrði þess var. Barnið dvaldi á heimilinu í að minnsta kosti sex klukkutíma áður en upp komst um málið, þegar drengurinn bað starfsmann um að hleypa gestinum út.
Móðir drengsins sagði í samtali við mbl.is að öryggi væri augljóslega ábótavant á Stuðlum ef svona lagað gæti gerst. Þá væri ekki skrýtið að auðvelt væri að smygla fíkniefnum inn á meðferðarheimilið.
Funi sagði þá að litið væri á atvikið mjög alvarlegum augum og að innri skoðun myndi fara fram. Augljóst væri að eitthvað hefði brugðist í gæslunni á börnunum. Atvikið var tilkynnt til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sem tók það þó ekki til frekari skoðunar.
Drengurinn var áður vistaður á meðferðarheimilinu Blönduhlíð á Vogi en er nýlega kominn inn á Stuðla. Hann hefur ítrekað strokið af báðum meðferðarheimilum og úr neyðarvistun Stuðla og eru leitarbeiðnir fyrir hann komnar hátt í 30 frá því um miðjan febrúar á þessu ári. Móðir hans spyr hvort það sé verið að bíða eftir fleiri alvarlegum atvikum, áður en gripið verði til aðgerða til að koma í veg fyrir strok.
„Aðgerðarleysið, ábyrgðarleysið og metnaðarleysið er með ólíkindum í þessum mikilvæga málaflokki,“ sagði móðirin í samtali við mbl.is í síðustu viku.