Íslensk sendinefnd hefur verið sýnileg á World Pride-hátíðinni í Washington, sem nær hámarki sínu í dag er árleg gleðiganga fer fram.
Hátíðin, sem fagnar 50 ára afmæli Pride-hátíðarinnar í höfuðborg Bandaríkjanna, hefur í þrjár vikur fyllt borgina af viðburðum tileinkuðum mannréttindum, fjölbreytileika og frelsi.
Að því er segir í tilkynningu hefur íslenska sendinefndin verið virk alla vikuna og gengur í göngunni í dag, með öðrum norrænum sendiráðum, sem fjölmennasta sendinefnd Norðurlandanna.
Á mannréttindaráðstefnu World Pride, sem fór fram dagana 4.–6. júní, hélt Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra Íslands, erindi. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að verja réttindi hinsegin fólks með skýrum lögum og sagði lagasetningu öflugasta vopnið gegn bakslagi í jafnréttismálum.
„Það eru kerfisbundnar atlögur gerðar að grunnstoðum vestrænna lýðræðisríkja – jafnrétti, frelsi og virðingu fyrir mannréttindum – vegna þess að menn trúa því að ef hægt er að brjóta það niður, sé eftirleikurinn auðveldari,“ er haft eftir Hönnu Katrínu í tilkynningu.
Rifjaði hún einnig upp að hún og eiginkona hennar hefðu þurft að flytja til Bandaríkjanna fyrir 25 árum til að eignast börn – þar sem slíkt var ekki mögulegt á Íslandi á þeim tíma. Sagði hún það hryggja sig að sjá hvernig andrúmsloftið í Bandaríkjunum hefði snúist.
Tók Hanna Katrín einnig þátt í íslensku pallborði undir yfirskriftinni Working Together, Rising Together – íslenskt pallborð um réttindi kvenna og hinsegin fólks og stýrði Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, umræðunum.
Auk ráðherrans sátu Helga Haraldsdóttir, formaður Hinsegin daga, og Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna ‘78, í pallborðinu.
Bjarndís Helga flutti stuðningskveðju frá Kvenréttindafélagi Íslands, þar sem áhersla var lögð á samstöðu kvenna og hinsegin fólks í baráttu fyrir jafnrétti og mannréttindum.
Þátttakendur lögðu allir áherslu á mikilvægi samstarfs kvennahreyfinga og hinsegin baráttunnar og deildu dæmum frá Íslandi um breiðan samfélagslegan stuðning – til dæmis mæti um 25% þjóðarinnar á Hinsegin daga á hverju ári.
Þann 4. júní tók Bjarndís Helga þátt í pallborði norrænu sendiráðanna. Auk hennar sátu Ulrika Westerlund, þingmaður Græna flokksins í Svíþjóð, Petter Wallenberg, tónlistarmaður og aktívisti, og Philip Sharif Khokhar, fréttamaður danska sjónvarpsins í Washington.
Devin P. Dwyer, fréttamaður ABC, stýrði umræðunum.
Þátttaka Íslands á mannréttindaráðstefnunni var skipulögð af Hinsegin dögum og Samtökunum '78, í samstarfi við sendiráð Íslands í Bandaríkjunum. Markmiðið var að miðla íslenskri reynslu á sviði jafnréttismála og styðja við alþjóðlegt samtal um réttindi allra – óháð kyni, kynhneigð eða kyngervi.
Ákvörðun bandarískra yfirvalda um að loka Dupont Circle Park, sögulegum samkomustað LGBTQ+-samfélagsins í Washington, yfir World Pride-helgina hefur verið túlkuð sem táknræn útilokun á helgri jörð samfélagsins á mikilvægum tíma.
Þrátt fyrir að lögreglustjóri D.C. hafi dregið til baka beiðni um lokun hélt National Park Service áformum sínum áfram, sem hefur leitt til gagnrýni frá bæði samfélagsleiðtogum og borgaryfirvöldum.
Á sama tíma hefur ákvörðun varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Pete Hegseth, um að fjarlægja nafn Harvey Milk af herskipi bandaríska flotans vakið mikla athygli og gagnrýni.
Harvey Milk var einn af fyrstu opinberlega samkynhneigðu kjörnu embættismönnum í Bandaríkjunum og táknmynd fyrir réttindabaráttu hinsegin fólks. Þessi gjörningur hefur verið túlkaður sem afturför í viðurkenningu á framlagi hinsegin einstaklinga til bandarísks samfélags.