Geta nú valið hvar þeir fá ódýrasta bensínverðið

Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1.
Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1. Ljósmynd/Aðsend

Viðskipta­vin­ir N1 geta nú valið á hvaða bens­ín­stöð fyr­ir­tæk­is­ins þeir dæla bens­íni fyr­ir lægsta verðið. Þetta er nýj­ung hjá N1 en Magnús Hafliðason, fram­kvæmda­stjóri N1, seg­ir í sam­tali við mbl.is að nýj­ung­in sé hugsuð til að mæta þörf­um viðskipta­vina N1.

„Það hef­ur verið ákveðin lenska hérna á markaðnum að vera með stöðvar hingað og þangað með lægsta verðinu. Við höf­um heyrt af því að fólk er að keyra jafn­vel bæj­ar­hluta á milli til að ná sér í ódýr­asta bens­ínið. Við erum að snúa þessu við í dag. Við ætl­um að færa valið hvar viðskipta­vin­ir N1 fá ódýr­asta verðið í þeirra hend­ur,“ seg­ir Magnús en til dæm­is get­ur fólk valið bens­ín­stöð sem er næst heim­ili sínu, vinnustað eða annað.

Nýj­ung­in er hluti af nýrri stöðuupp­færslu í smá­for­riti N1. Í smá­for­rit­inu geta viðskipta­vin­ir N1 valið „stöðin mín“ þar sem þeir fá ódýr­asta verð á bens­íni sem N1 býður upp á. Hægt er að skipta um stöð á 30 daga fresti.

„Það er aldrei að vita hvað ger­ist í haust“

Til að byrja með var­ir þessi nýj­ung í 12 vik­ur en Magnús seg­ir að ekki sé úti­lokað að þetta fyr­ir­komu­lag haldi áfram inn í haustið.

„Það er aldrei að vita hvað ger­ist í haust. Við ætl­um að sjá viðtök­urn­ar. Þetta er nálg­un sem er í takt við okk­ar stefnu, sem er að setja þarf­ir viðskipta­vina okk­ar í for­grunn. Ef þetta gefst vel og viðtök­urn­ar verða eins og við reikn­um með, er aldrei að vita hvað ger­ist í fram­hald­inu,“ seg­ir Magnús en hann seg­ir að hingað til hafi viðtök­urn­ar verið góðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert