Viðskiptavinir N1 geta nú valið á hvaða bensínstöð fyrirtækisins þeir dæla bensíni fyrir lægsta verðið. Þetta er nýjung hjá N1 en Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1, segir í samtali við mbl.is að nýjungin sé hugsuð til að mæta þörfum viðskiptavina N1.
„Það hefur verið ákveðin lenska hérna á markaðnum að vera með stöðvar hingað og þangað með lægsta verðinu. Við höfum heyrt af því að fólk er að keyra jafnvel bæjarhluta á milli til að ná sér í ódýrasta bensínið. Við erum að snúa þessu við í dag. Við ætlum að færa valið hvar viðskiptavinir N1 fá ódýrasta verðið í þeirra hendur,“ segir Magnús en til dæmis getur fólk valið bensínstöð sem er næst heimili sínu, vinnustað eða annað.
Nýjungin er hluti af nýrri stöðuuppfærslu í smáforriti N1. Í smáforritinu geta viðskiptavinir N1 valið „stöðin mín“ þar sem þeir fá ódýrasta verð á bensíni sem N1 býður upp á. Hægt er að skipta um stöð á 30 daga fresti.
Til að byrja með varir þessi nýjung í 12 vikur en Magnús segir að ekki sé útilokað að þetta fyrirkomulag haldi áfram inn í haustið.
„Það er aldrei að vita hvað gerist í haust. Við ætlum að sjá viðtökurnar. Þetta er nálgun sem er í takt við okkar stefnu, sem er að setja þarfir viðskiptavina okkar í forgrunn. Ef þetta gefst vel og viðtökurnar verða eins og við reiknum með, er aldrei að vita hvað gerist í framhaldinu,“ segir Magnús en hann segir að hingað til hafi viðtökurnar verið góðar.