Sumarið erfiðasti tíminn

Mikil þörf er á fósturheimilum fyrir kisur og önnur dýr …
Mikil þörf er á fósturheimilum fyrir kisur og önnur dýr að sögn Dýrahjálpar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sum­arið reyn­ist alltaf erfiðasti tím­inn hjá Dýra­hjálp Íslands, sér­stak­lega í byrj­un sum­ars, að sögn Sonju Stef­áns­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra sam­tak­anna.

Hún seg­ir júní­mánuð vera sér­stak­lega krefj­andi vegna mik­ils fjölda beiðna um að taka við dýr­um.

„Þetta er af alls kon­ar ástæðum. Fólk er að flytja úr landi, flytja í hús­næði sem leyf­ir ekki dýr, eða af ein­hverj­um ástæðum geng­ur dýra­haldið ekki upp,“ seg­ir Sonja í sam­tali við mbl.is.

Bend­ir hún einnig á að sum­ar­frí fólks geti mögu­lega haft áhrif.

Vilja efla tengsl­in við sveit­ar­fé­lög

Sonja seg­ir Dýra­hjálp vera í góðu sam­starfi við op­in­ber­ar stofn­an­ir, eins og Mat­væla­stofn­un (MAST) og heil­brigðis­eft­ir­lit sveit­ar­fé­laga, en seg­ir þó að sam­tök­in gætu eflt tengsl­in við fleiri sveit­ar­fé­lög.

Hún hvet­ur fólk til að hafa aug­un opin varðandi dýra­vel­ferð og bend­ir á að ábend­ing­um um brot á dýra­vel­ferðarlög­um eigi að beina til MAST.

Dýra­hjálp taki við dýr­um sem eru í neyð og eigi ekki í nein hús að venda eða eru að missa heim­il­in sín.

Þörf á fleiri fóst­ur­heim­il­um fyr­ir dýr

Sam­tök­in reiða sig al­gjör­lega á skráð fóst­ur­heim­ili þar sem þau hafa ekk­ert at­hvarf til að hýsa dýr­in á meðan leitað er eft­ir framtíðar­heim­il­um.

„Við höf­um um 700 fóst­ur­heim­ili skráð en okk­ur vant­ar fleiri heim­ili fyr­ir bæði hunda, ketti og kan­ín­ur. Það er mik­il­vægt að fóst­ur­heim­il­in séu fjöl­breytt þar sem þarf­ir dýr­anna eru ólík­ar,“ seg­ir hún og bend­ir áhuga­söm­um sem upp­fylla kröf­ur um fóst­ur­heim­ili fyr­ir dýr á heimsíðu sam­tak­anna. 

Sonja legg­ur áherslu á ábyrgð þeirra sem af­henda dýr til annarra og seg­ir mik­il­vægt að vanda valið þegar ný heim­ili eru val­in.

„Ábyrgðin ligg­ur hjá þeim sem láta dýr­in frá sér. Heim­ilið þarf að henta dýr­inu, ekki bara fólk­inu,“ út­skýr­ir hún.

Fjöldi heim­il­is­lausra dýra eft­ir Covid auk­ist

Sam­tök­in hafa sett sér framtíðarmark­mið að koma á fót litlu neyðar­at­hvarfi þar sem hægt verður að taka við dýr­um sem fá ekki strax fóst­ur­heim­ili.

„Lang­tíma­draum­ur­inn væri að gera okk­ur sjálf óþörf með því að minnka fjölda heim­il­is­lausra dýra, en það er auðvitað bjart­sýni,“ seg­ir Sonja.

Eft­ir Covid-tíma­bilið hef­ur fjöldi heim­il­is­lausra dýra auk­ist mikið aft­ur. Hún seg­ir það meðal ann­ars vegna þess að marg­ir hófu rækt­un dýra í far­aldr­in­um.

„Við þurf­um aft­ur að byrja að leggja áherslu á fræðslu. Fólk þarf að hugsa sig tvisvar um áður en það fjölg­ar dýr­um, því það er ekki alltaf nóg af hent­ug­um heim­il­um fyr­ir þau,“ seg­ir hún.

Öll dýr í neyð vel­kom­in

Sonja bæt­ir við að sam­tök­in þurfi alltaf fleiri sjálf­boðaliða til ým­issa verka, ekki bara umönn­un­ar dýra held­ur líka verk­efna eins og lag­erum­sjón­ar og viðburða.

Einnig bend­ir hún á að á heimasíðu sam­tak­anna megi all­ir aug­lýsa sem vanti að finna heim­ili fyr­ir dýr­in sín, ef nauðsyn krefst. Það úrræði er aðeins hugsað fyr­ir fólk sem þarf virki­lega að finna ný heim­ili fyr­ir dýr­in sín.

Öll dýr eru vel­kom­in, jafnt hest­ar sem hamstr­ar í neyð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert