Streymisveitan HBO Max er væntanleg til landsins í júlí og mun þar með bætast við flóru streymisveita sem eru í boði fyrir íslenska sjónvarpsáhorfendur. Meðal efnis sem í boði verður eru kvikmyndir og þættir úr smiðju HBO, Warner Bros. Pictures, DC Studios, Max Originals og Discovery.
Greint er frá þessu í tilkynningu, en meðal kvikmynda sem verða í boði á streymisveitunni eru A Minecraft Movie og Harry Potter og meðal aðgengilegra sjónvarpssería verða The Last of Us, The White Lotus, House of the Dragon og The Pitt í bland við nýjar væntanlegar sjónvarpsseríur eins og Task og IT: Welcome to Derry.
Efni verður aðgengilegt á ensku með íslenskum texta á völdum titlum en íþróttalýsingar verða á ensku.
Grunnáskrift að þjónustunni mun kosta 13 evrur á mánuði, eða rúmlega 1.900 krónur á núverandi gengi. Felur það í sér að hægt er að streyma í tveimur tækjum samtímis. Einnig verður premium-áskrift í boði, en þar verður hægt að streyma í fjórum tækjum samtímis og í boði verður aukið niðurhal til skoðunar án nettengingar. Kostar sú áskrift 19 evrur á mánuði.
Valfrjáls viðbót af alþjóðlegu íþróttaefni verður þá í boði fyrir 5 evrur á mánuði.
Í tilkynningunni er haft eftir Christina Sulebakk, framkvæmdastjóra og aðstoðarforstjóra Warner Bros Discovery Nordics, að mikil spenna ríki innan herbúða fyrirtækisins um komu HBO Max til Íslands.
„Útbreiðslan er mikilvægur áfangi í hnattvæðingu HBO Max og er til marks um skuldbindingu okkar um að færa öllum áhorfendum heimsklassa efni.
Áskrifendur geta því spenntir notið úrvals streymisþjónustunnar sem sameinar gæðaefni frá HBO, Warner Bros. Pictures, Discovery, Eurosport og mörgu fleiru,“ er haft eftir Christinu í tilkynningu frá fyrirtækinu.