Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis segir að atvik þar sem hjól losnaði af flugvél og lenti á Austurvelli í gær sé grafalvarlegt og veki spurningar um öryggi Alþingishússins úr lofti. Hún segir kínverska sendinefnd hafa staðið þar sem dekkið kom niður einungis örfáum mínútum áður.
Fjöldi þingmanna var í Alþingishúsinu þegar hjóliðkom niður og að sögn Þórunnar urðu einhverjir þeirra varir við mikinn dynk. Hjólið kom niður í Kirkjustræti fyrir framan Alþingishúsið áður en það skoppaði frá Alþingishúsinu.
Í kínversku sendinefndinni var varaforseti alþýðuþjóðþings Kína, Zhang Qingwei, ásamt föruneyti. Þórunn segir að sendinefndin hafi staðið á Kirkjustræti og beðið þess að fara í bílalest um fimm mínútum áður en hjólið kom aðvífandi.
„Ég skoðaði myndatökur úr öryggismyndavélum og í mínum huga er atvikið mjög alvarlegt. Það var mikil mildi að enginn skyldi vera á leið yfir kirkjustrætið þegar hjólið lenti á götunni. Það voru kannski fimm mínútum áður eða svo sem kínverska sendinefndin stóð þarna. Við vorum aðeins á undan áætlun sem betur fer,“ segir Þórunn.
Hún segir margar spurningar vakna um öryggismál vegna atviksins. „Ekki bara umhverfis þingið heldur einnig fyrir ofan það. Við erum í beinni fluglínu við Reykjavíkurflugvöll og þurfum að skoða þessi mál mjög vel,“ segir Þórunn.