Raforkukostnaður hefur hækkað langt umfram verðbólgu undanfarin ár. Þetta staðfestir að mati Samtaka iðnaðarins það sem þau hafa ítrekað bent á, að skortur á raforku og skert framboð hafi leitt til hækkana á verði til heimila og fyrirtækja.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samtaka iðnaðarins í kjölfar blaðamannafundar Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, ásamt raforkueftirlitinu í ráðuneytinu fyrr í dag.
Fram kom í skýrslu Raforkueftirlitsins að raforkukostnaður heimila hefur hækkað um 11% frá árinu 2020 á föstu verðlagi, sem sagt 11% umfram verðbólgu. Fyrir fyrirtæki, álver, gagnaver og fleira er þessi tala um 24%-54% og hækkunin umfram verðbólgu því veruleg.
Í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins segir að eftirspurn hafi farið fram úr framboði á raforkumarkaði, sem hafi þrýst verði upp á við. Telja samtökin brýnt að ráðist verði tafarlaust í uppbyggingu bæði nýrrar orkuvinnslu og raforkukerfisins í heild.
„Raforkukostnaður hefur hækkað langt umfram verðbólgu undanfarin ár, sem staðfestir það sem við hjá Samtökum iðnaðarins höfum verið að benda á,“ er haft eftir Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra samtakanna.
„Raforkuskortur er meginorsök þessarar þróunar en sá skortur er afleiðing áralangrar kyrrstöðu við uppbyggingu raforkukerfisins sem hefur kostað samfélagið mikið og verið dragbítur á samkeppnishæfni íslensks iðnaðar.“
Greining Raforkueftirlitsins staðfestir að raforkukostnaður heimila, fyrirtækja, stórnotenda og garðyrkjubænda hefur hækkað verulega frá árinu 2020 til 2025. Hækkunin nær til allra þátta, þ.e.a.s. raforkuverðs, dreifikostnaðar og flutningskostnaðar.
„Það er því brýnt að ráðast í tafarlausa uppbyggingu nýrrar orkuvinnslu og raforkukerfisins til að mæta vaxandi eftirspurn og tryggja stöðugleika í verði,“ er haft eftir Sigurði.
Samtökin fagna því að ráðist var í greininguna.
„Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og ný Umhverfis- og orkustofnun [eiga] hrós skilið fyrir að láta taka saman þessar upplýsingar, sem eru nýmæli fyrir íslenskan raforkumarkað.”