Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi flokka í Reykjavík ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar sem Gallup vann fyrir Viðskiptablaðið.
Fengi flokkurinn 8 borgarfulltrúa ef gengið yrði til kosninga nú. Samfylkingin myndi bæta tveimur við sína fimm en Framsókn missa alla sína fjóra.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með ríflega 31 prósents fylgi samanborið við 34 prósenta fylgi í mars. Samfylkingin mælist með 26 prósenta fylgi samanborið við 20 prósenta fylgi í mars. Framsóknarflokkurinn, sem hlaut tæplega nítján prósenta fylgi í kosningunum 2022 og fjóra borgarfulltrúa, mælist nú með 3,1 prósents fylgi og myndi missa alla sína borgarfulltrúa ef gengið yrði til kosninga nú.
Sósíalistar tapa fylgi en þeir mælast með rúmlega níu prósenta fylgi samanborið við þrettán prósenta fylgi í mars. Flokkurinn myndi samkvæmt því halda sínum tveimur borgarfulltrúum.
Flokkur fólksins og Vinstri græn myndu halda sínum borgarfulltrúanum hvor, með um 4,5 prósenta fylgi. Píratar myndu sömuleiðis fá einn borgarfulltrúa kjörinn, samanborið við þrjá eftir kosningarnar 2022. Flokkurinn mælist með 5,7 prósenta fylgi, sem er aðeins meira en í könnuninni í mars.
Viðreisn mælist með 10,6 prósenta fylgi og fengi tvo borgarfulltrúa kjörna og myndi bæta við sig einum. Miðflokkurinn mælist með 5,4 prósenta fylgi og myndi ná inn einum manni, en flokkurinn náði ekki inn manni í kosningunum 2022.
Könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið var framkvæmd dagana 1. til 31. maí. Í úrtaki voru 4.263 Reykvíkingar átján ára og eldri og var þátttökuhlutfallið 43,4 prósent.