Margir tengja sumarið við hljóminn af bjöllum ísbíla sem keyra um götur landsins með ís, en nú er komið að tímamótum. Fyrirtækið Ísbíllinn er komið á sölu og segir eigandinn að virði þess gæti verið yfir 150 milljónir króna.
Það er fyrirtækið Ísbílaútgerðin ehf. sem rekur Ísbílinn, en eigandinn, Ásgeir Baldursson, tilkynnti fyrst um söluna í færslu á Facebook-síðunni Fyrirtæki til sölu/óskast – Kennitalan.is.
„Vegna breytinga á persónulegum högum er Ísbíllinn til sölu. Stórkostlegt fjárfestingartækifæri,“ skrifar Ásgeir í færslunni.
Í samtali við mbl.is segir hann fyrirtækið bjóða upp á tækifæri fyrir þá sem hafa fjármagn og metnað til að byggja ofan á það sem þegar er til staðar.
Ísbíllinn hefur verið starfræktur síðan árið 1994 og hefur Ásgeir haldið um stjórnartaumana frá árinu 2006. Í dag telur bílafloti fyrirtækisins fjórtán bíla, þar af eru tólf í notkun.
„Ef einhver er með smá capital og svolítinn dugnað þá geturðu malað gull,“ segir hann.
Að sögn Ásgeirs fylgja rekstrinum fjölmörg rekstrartæki: bílafloti, leiðarkerfi, sölukerfi, vefverslun, rauntímakort, viðburðaþjónusta, samningar við birgja, frystiklefi og varahlutir.
„Miðað við hvernig reksturinn er búinn að vera þá hugsa ég að fullt virði sé svona 150 milljónir plús. En það kann vel að vera að ég myndi segja já við einhverju sem er ekki svo hátt,“ segir Ásgeir.