Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði árið 2023 hefur skilað ráðherra skýrslu með tillögum og greinargerð um endurskipulagningu og eflingu talmeinaþjónustu við börn.
Í skýrslunni er lagt til að þjónustan verði veitt á þremur stigum, í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, með áherslu á snemmtækan stuðning, einfaldara þjónustukerfi og þjónustu í nærumhverfi barna.
Meðal helstu tillagna er að tryggð verði þjónusta talmeinafræðinga innan heilsugæslunnar fyrir börn á aldrinum 0–2 ára, einkum í kjölfar tilvísana frá ung- og smábarnavernd. Sveitarfélögin sinni áfram grunnþjónustu við börn á leik- og grunnskólaaldri, þar sem þjálfun, ráðgjöf og fræðsla til foreldra og starfsfólks verði lykilþættir.
Ef grunnþjónusta dugar ekki til taki við sérfræðiþjónusta. Áhersla verði lögð á að þjónustan fari fram í nærumhverfi barnsins, óháð því hver beri ábyrgð á henni, til að tryggja betra aðgengi og sem minnsta röskun í lífi barna og fjölskyldna þeirra.
Jafnframt er lagt til að fjarþjónusta verði efld og komið verði á miðlægum biðlista fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga.
Þetta á að bæta yfirsýn, tryggja forgangsröðun og auka gagnsæi í þjónustuveitingu.
Í skýrslunni er einnig lögð áhersla á nýsköpun í menntun og lagt til að komið verði á fót nýrri námsbraut fyrir talþjálfa sem starfi undir leiðsögn talmeinafræðinga og sinni þjálfun barna í skólum.
Með því er stefnt að því að styðja við snemmtæka íhlutun og auka sveigjanleika þjónustunnar.
Starfshópurinn leggur til að skilyrði um tilvísun læknis fyrir greiðsluþátttöku verði afnumin. Í stað þess nægi faglegt mat talmeinafræðings í grunnþjónustu til að sækja um greiðsluþátttöku vegna sérfræðiþjónustu.
Loks er lagt til að ábyrgðarskipting sem sett var fram árið 2014 verði endurskoðuð í ljósi nútímalegs lagaumhverfis og fjölbreyttra þarfa barna, sérstaklega þeirra sem hafa íslensku sem annað mál eða búa við margþættar áskoranir.
Markmið tillagnanna er að bæta líðan, stuðning og réttindi barna með frávik í tali og málþroska með skýrri þjónustuskiptingu, samþættingu og góðu aðgengi í nærumhverfi þeirra.
Skýrslan með öllum tillögum og greinargerð er aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.