Steinþór sýknaður í Hæstarétti

Steinþór Ein­ars­son sem er hér til hægri var sýknaður.
Steinþór Ein­ars­son sem er hér til hægri var sýknaður. mbl.is/Eyþór Árnason

Hæstirétt­ur staðfesti sýknu­dóm yfir Steinþóri Ein­ars­syni sem ákærður var fyr­ir að verða Tóm­asi Waag­fjörð að bana á Ólafs­firði í októ­ber árið 2022. Staðfesti Hæstirétt­ur þar niður­stöðu Lands­rétt­ar en áður hafði Steinþór verið dæmd­ur í 8 ára fang­elsi í héraðsdómi.

Steinþór var sakaður um að stinga Tóm­as tví­veg­is í síðuna með þeim af­leiðing­um að hann missti mikið blóð sem leiddi til dauða hans.

Tek­ist var um það hvort um sjálf­vörn hafi verið að ræða. 

Tóm­as hafi stungið Steinþór 

Kvöldið af­drifa­ríka kom til átaka á milli Tóm­as­ar og Steinþórs er Tóm­as krafðist þess að eig­in­kona sín, sem var æsku­vin­kona Steinþórs, snéri aft­ur á heim­ili þeirra aðfaranótt 3. októ­ber 2022 á Ólafs­firði. Hjón­in höfðu átt í storma­sömu sam­bandi.

Tóm­as er sagður í dómi hafa komið og stungið Steinþór nær fyr­ir­vara­laust með hnífi. Steinþór hlaut við árás­ina stungu í læri og í vinstri kinn þannig að tönn brotnaði. Í kjöl­farið urðu átök þar sem þeir tók­ust á um hníf­inn og lauk þeim með því að Tóm­as lét lífið.

Óvenju­leg­ar aðstæður 

Steinþór neitaði að hafa stungið Tóm­as vís­vit­andi. Við aðalmeðferð máls­ins fyr­ir Lands­rétti sagði Steinþór að hlut­irn­ir hefðu gerst mjög hratt og það hefði komið hon­um mjög á óvart að Tóm­as hefði látið lífið.

Í niður­stöðu Hæsta­rétt­ar er m.a. vísað til niður­stöðu Lands­rétt­ar og sagt:

„Eins og að fram­an er rakið var talið sannað í hinum áfrýjaða dómi að um mjög óvenju­leg­ar aðstæður hefði verið að ræða þar sem brotaþoli hefði ráðist á ákærða með hnífi sem hann bar inn­an klæða og beitti fyr­ir­vara­laust gegn hon­um óvopnuðum á dval­arstað hans.“

Hafi verið for­viða

Þá seg­ir að byggt á munn­leg­um mál­flutn­ingi á fyrri dóm­stig­um þyki sannað að Steinþór hafi verið „for­viða“ og brugðist við aðstæðum þegar ráðist var á hann.

Er því tekið und­ir niður­stöðu Lands­rétt­ar og Steinþór sýknaður og sjálfs­vörn sögð rétt­læt­an­leg.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert