This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Tómas Guðmundsson skáld mun hvorki hlaupa með Valdimar Sverrissyni, ljósmyndara og uppistandara, né styrkja hann í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar enda er hann löngu fallinn frá, auk þess sem ekki eru vasar á líkklæðum.
Þetta kemur fram í grínmyndbandi sem Valdimar hefur gert í tilefni af hlaupinu og sjá má hér að neðan. Tómas lofar þó að vera með hlauparanum í anda.
Í sumar eru liðin tíu ár síðan Valdimar missti sjónina í kjölfar aðgerðar þar sem æxli var fjarlægt úr heila hans. Af því tilefni ætlar hann að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu 23. ágúst og safna um leið áheitum fyrir Grensásdeild Landspítalans en þar fékk hann á sínum tíma góða umönnun og mikilvæga endurhæfingu eftir aðgerðina.
„Þetta verður áttunda hlaupið mitt og ég hef safnað fyrir ýmsa aðila en þótti tilvalið að gera það núna fyrir Grensásdeildina af þessu tilefni," segir Valdimar.
Hann æfir nú af kappi ásamt aðstoðarmanni sínum, Jósteini Einarssyni, sem hleypur með honum sem fyrr. „Hann brosir út að eyrum fyrir það eitt að fá að hlaupa með mér,“ segir Valdimar.
Hann segir gaman að leika sér að tölum í þessu sambandi. „Það eru tíu ár síðan ég missti sjónina og þetta verður áttunda hlaupið. Tíu plús átta eru 18 og svo skemmtilega vill til að ég á einmitt afmæli í dag, 18. júní."
Valdimar deilir afmælisdegi með sjálfum Sir Paul McCartney sem talar einmitt ómeðvitað til hans í Bítlalaginu fræga Birthday:
„They say it's your birthday
Well, it's my birthday too, yeah
They say it's your birthday
We're gonna have a good time“
Valdimar náði aldrei að sjá Sir Paul á tónleikum meðan hann hafði sjónina en hefur í tvígang verið á tónleikum hans síðan, í New York 2017 og aftur í Lundúnum 2018. Fékk þá bæði Ronnie Wood úr The Rolling Stones og hinn eftirlifandi Bítilinn Ringo Starr í kaupbæti sem gesti á sviðinu.