Fjörutíu manns komu að aðgerðum lögreglu í tengslum við fíkniefnaframleiðslu í gær. Megnið af þeim voru lögreglumenn en einnig sérfræðingar.
Í kjölfar húsleita á nokkrum stöðum á landinu fóru handtökur fram og verður farið fram á gæsluvarðhald yfir sakborningum í dag.
„Hún var á mörgum stöðum en það er nokkuð stór aðgerð,“ segir Skarphéðinn Aðalsteinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is.
Aðspurður segist hann ekki hafa upplýsingar um hversu langt gæsluvarðhaldið verður.
Aðgerðirnar hófust um klukkan 10 í gærmorgun og var lögreglan á Norðurlandi eystra í samstarfi við lögregluna á Vesturlandi, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra.
Spurður hvers vegna aðgerðirnar hefðu tekið svona langan tíma segir Skarphéðinn húsleitir geta verið mjög tímafrekar aðgerðir, sérstaklega ef um umfangsmeiri mál er að ræða, eins og í þessu tilfelli. „Þá tekur svona vettvangsvinna bara langan tíma.“
Í tilkynningu lögreglu segir að lögreglan á Norðurlandi eystra hafi um nokkurt skeið unnið að rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi sem talin sé tengjast fíkniefnaframleiðslu. Með aðgerðunum í gær hafi verið unnt að staðfesta þessar grunsemdir en rannsókn málsins sé á frumstigi.