Bensín fannst í sýnum sem voru tekin í kjallaraíbúð á Hjarðarhaga í Vesturbænum, þar sem tveir menn létust í eldsvoða í síðasta mánuði.
Þetta staðfestir Elín Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is, en rannsókn málsins er enn í gangi.
Næstu skref rannsóknarinnar eru að sögn Elínar skýrslutaka af vitnum ásamt slösuðum en hún segir rannsókn eldsvoðans vel á veg komna.
Enginn er með stöðu sakbornings í málinu og segir Elín stöðuna enn óbreytta. Hún telur bensínfundinn ekki fresta rannsókn um of.
Fjórir menn bjuggu í kjallaraíbúðinni við Hjarðarhaga þar sem eldurinn kom upp. Þrír þeirra voru í íbúðinni og létust tveir þeirra.
Mennirnir sem létust í eldsvoðanum voru Bandaríkjamaður á sextugsaldri og Tékki á fertugsaldri. Sá þriðji er Ungverjinn Sári Morg Gergö.