Reykjavíkurborg stendur fyrir fjölbreyttri dagskrá í dag, 19. júní, í tilefni af kvenréttindadeginum. 110 ár eru síðan íslenskar konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
Dagskráin hefst klukkan 16 í Hólavallagarði þar sem Sanna Magdalena Mörtudóttir, forseti borgarstjórnar, leggur blómsveig að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur baráttukonu en hún var ein af stofnendum Kvenréttindafélags Íslands.
Kvenréttindafélag Íslands verður með fyrirpartý í anddyri og garði Hallveigarstaða í tilefni dagsins. Þar sem Kvenréttindafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands og Bandalag kvenna í Reykjavík bjóða upp á kaffi, kleinur og léttar veigar.
Að loknu partýinu verður gengið yfir á tónleika Kvennaársins í Hljómskólagarðinum sem hefst kl 19 en þar munu Bríet, Reykjavíkurdætur, Heimilistónar, Countess Malaise og Mammaðín stíga á svið. Matarvagnar verða einnig á staðnum.
Borgarsögusafn býður einnig upp á fræðslugöngu um söguslóðir kvenna í miðbæ Reykjavíkur. Gangan hefst klukkan 19 við Borgarbókasafnið Grófinni. Stoppað verður á völdum stöðum og greint frá mörgum merkum þáttum í sögu kvenna í Reykjavík.
Í Hólavallagarði verður einnig boðið upp á sögugöngu þar sem skoðuð verður birtingarmynd kvenna í kirkjugarði. Gönguna leiðir Heimir Janusarson, umsjónarmaður Hólavallagarðs. Gangan hefst klukkan 19.
Þá verður heimildarmyndin „Dagurinn sem Ísland stöðvaðist“ eftir Pamelu Hogan og Hrafnhildi Gunnarsdóttur sýnd í Bíó Paradís í tilefni dagsins. Sýningin hefst klukkan 19 og mun Hrafnhildur, framleiðandi myndarinnar, segja frá gerð myndarinnar að lokum sýningarinnar.