Fulltrúar lögreglu, sveitarfélags Bláskógarbyggðar, Ferðamálastofu, Landsbjargar, Safe Travel, Náttúruverndarstofnunar, Markaðsstofu Suðurlands og landeigenda funduðu til að ræða öryggismál við Brúará í dag.
Ástæðan var banaslys í byrjun júní þar sem erlend ferðakona lést. Á síðustu þremur árum hafa þrír ferðamenn látið lífið í Brúará.
„Við áttum fund með lögreglu í vikunni eftir síðasta slysið og í morgun funduðu síðan allir helstu hagsmunaaðilar,“ segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógarbyggðar, í samtali við mbl.is.
„Fókusinn var að mestu leyti á þessi slys við Brúará og sett var fram ákveðin áætlun um bráðaaðgerðir.“
Unnið er að umsókn um framlög úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna kostnaðar við úrbætur. Í bráðaaðgerðunum felst meðal annars að bæta merkingar og upplýsingagjöf til ferðamanna.
„Við erum að fara í að setja upp skilti og miðla upplýsingum á vef og með öðrum hætti,“ segir Ásta. Einnig verður svæðið afmarkað með svokölluðum staura- og bandakerfum, þar sem ferðafólki er sýnt með skýrum hætti hvaða svæði eru talin hættuleg.
Þrátt fyrir að svæðið við Brúará sé ekki formlega skilgreint sem ferðamannastaður hefur það dregið að sér fjölda ferðamanna.
Ásta segir að erfitt geti verið að hafa taumhald á ferðamönnum, „en það er hægt að merkja betur og upplýsa þá betur, sýna þeim hvar hættur eru og í hverju þær felast.“
Að lokum ítrekar Ásta mikilvægi þess að allir hlutaðeigandi standi saman. „Allir sem koma að þessum málum þurfa að taka höndum saman, miðla upplýsingum og leiðbeina þeim sem eru á ferð um landið. Það eru víða hættur.“