Ríkislögreglustjóri og 12 aðrar opinberar stofnanir undirrituðu nýlega samstarfsyfirlýsingu um samstarf gegn skipulagðri brotastarfsemi sem beinist gegn hinu opinbera.
Í tilkynningu á vef lögreglunnar segir að markmið samstarfsins sé að efla mótstöðu samfélagsins gegn slíkum brotum og draga úr þeim veikleikum sem glæpasamtök kunna að nýta sér.
Þær stofnanir sem koma að samstarfinu eru: Auðkenni, Fjársýslan, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, Skatturinn, Stafrænt Ísland, Tryggingastofnun, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun, Útlendingastofnun, Þjóðskrá, héraðssaksóknari og ríkislögreglustjóri.
„Skilvirkar forvarnir, aukin þjálfun og fræðsla, betri gæði auðkenningar og hröð og áreiðanleg upplýsingamiðlun er liður í því að efla mótstöðu samfélagsins gegn skipulagðri brotastarfsemi sem beinist gegn hinu opinbera,“ segir í tilkynningunni.
„Hópurinn verður kallaður saman að lágmarki þrisvar á ári þar sem farið verður yfir framgang verkefna og áherslur mótaðar. Þess á milli starfar framkvæmdateymi sem tilnefnt er í og starfar í umboði stofnananna,“ segir jafnframt í tilkynningunni en fulltrúar ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara eiga fast sæti í teyminu.
Teymið hefur það hlutverk að vera leiðandi í þróun samstarfsins, taka ákvarðanir um áhersluverkefni, leiða umræður á samráðsfundum og útbúa aðgerðaráætlun. Ríkislögreglustjóri boðar samstarfsfundi samstarfsaðila, leiðir framkvæmdateymi og boðar fundi þess.
Samstarfið nær til næstu fjögurra ára.