Lögreglumenn frá Írlandi eru væntanlegir til Íslands í næstu viku í tengslum við rannsókn þeirra á hvarfi Jóns Þrastar Jónssonar, en síðast er vitað um ferðir hans í Dyflinni á Írlandi í febrúar 2019.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að samþykkt réttarbeiðni liggi fyrir og til standi að taka skýrslur af um 35 manns vegna málsins.
Mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veita liðsinni vegna þessa.
„Tekið skal fram að fyrirhugaðar skýrslutökur eru á forræði og undir stjórn íslensku lögreglunnar,“ segir í tilkynningunni.
Við rannsókn málsins hefur verið kallað eftir upplýsingum frá almenningi og er það ítrekað hér, en þeim má koma á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is