Engin leit að Sigríði Jóhannsdóttur er fyrirhuguð í dag, Sigríðar hefur verið saknað síðan á föstudag. Lögreglufulltrúi segir stöðuna endurmetna ef nýjar vísbendingar berast.
Leit er ekki formlega hætt en frekari ákvörðun verður tekin um helgina, staðfestir Sigrún Kristín Jónasdóttir, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Síðast er vitað um ferðir Sigríðar á Digranesheiði í Kópavogi síðdegis föstudaginn 13. júní.
Lögregla fékk nýjar vísbendingar í tengslum við leitina á þriðjudag. Hóf þá lögregla ásamt björgunarsveit leit í Elliðaárdal.
Sigrún segir leitina í Elliðaárdal engan árangur hafa borið þrátt fyrir mikið umfang.
Lögreglan biður þau sem geta gefið upplýsingar um ferðir Sigríðar að hafa samband við lögregluna í síma 112 eða 444 1000 eða með tölvupósti á netfangið 100@lrh.is