Sigríður Stefánsdóttir er nýr formaður í stjórn Rauða krossins á Íslandi en hún tekur við formennsku af Silju Báru Ómarsdóttur sem hefur sinnt formennskunni síðastliðin þrjú ár.
Formannsskiptin áttu sér stað á fundi stjórnarinnar í gær en Silja Bára var nýlega kjörin rektor við Háskóla Íslands og tekur hún við því embætti 1. júlí nk.
Sigríður hefur verið varaformaður stjórnarinnar undanfarin þrjú ár. Hún hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum frá árinu 2017. Í tilkynningu frá Rauða krossinum segir að Sigríður sé með BA-próf í almennum þjóðfélagsfræðum frá Háskóla Íslands auk þess sem hún stundaði framhaldsnám í stjórnmálafræði í Þýskalandi. Sigríður hefur einnig lokið námi til kennsluréttinda.
Sigríður hefur kennt félagsfræði og stjórnmálafræði við Menntaskólann á Akureyri auk þess sem hún sinnti stjórnunarstörfum hjá Akureyrarbæ á árunum 1998 til 2017. Hún var bæjarfulltrúi og bæjarráðsmaður á Akureyri á árunum 1984 til 1998 og forseti bæjarstjórnar í tvö ár.
„Ég tek við starfi formanns með mikilli auðmýkt, tilhlökkun og virðingu fyrir þeim sem starfa fyrir Rauða krossinn, bæði sjálfboðaliðum og starfsfólki,“ er haft eftir Sigríði í tilkynningu.
Vill hún leggja sérstaka áherslu á að fjölga sjálfboðaliðum og styðja við störf þeirra. Þá vill hún einnig reyna að tryggja að starf Rauða krossins verði öflugt um allt land.
Silja Bára segir að það hafi verið mikill heiður að vera í stjórn Rauða krossins og gegna formennsku síðustu árin. Segir hún starf Rauða krossins vera afar mikilvægt, ekki aðeins hér á Íslandi heldur einnig á alþjóðavettvangi.
„Ég lýk stjórnarsetu í Rauða krossinum með þakklæti en held áfram að vera félagi og mannvinur,“ segir Silja Bára.