Losa þurfti hvalshræ af perustefni Norrænu eftir að ferjan kom í höfn á Seyðisfirði í morgun. Virðist vera að ferjan hafi, á leið sinni frá Færeyjum til Seyðisfjarðar, siglt á hvalinn sem sat pikkfastur á perustefninu.
Starfsmenn Seyðisfjarðarhafnar og áhöfn Norrænu losuðu hræið af stefni skipsins en talið er að um hnúfubak sé að ræða.
Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður hafna Múlaþings, segir í samtali við mbl.is að hafnarstarfsmenn hafi ekki vitað af atvikinu þegar Norræna kom til hafnar.
„Þeir koma bara hérna siglandi inn fjörðinn eins og þeir gera. Við stóðum á bryggjunni og okkur fannst þetta eitthvað skrítið, það var svo mikil áberandi alda sem skipið var að ryðja frá sér.
Svo þegar hann kemur aðeins nær þá sáum við að hvalur lá þvert yfir peruna á skipinu, hann var alveg klesstur ofan í peruna og eiginlega bara límdur við.“
Rúnar segir áhöfn skipsins telja að áreksturinn við hvalinn hafi orðið um klukkan sjö í morgun en þá hafi högg komið á skipið.
Svo lýsir hann atvikum þannig að þegar ferjan hafi verið komin að bryggju hafi skipstjórinn komið niður á bryggjuna og menn skeggrætt hvernig þeir ættu að snúa sér í málinu.
Smyril Line hafi afráðið að fá hjólagröfu til að draga hvalinn af perunni með stroffu sem komið var fyrir utan um sporð hvalsins. Það hafi ekki gengið nógu vel og stroffan slitnað.
„Þetta er náttúrulega svo þungt. Strákurinn á gröfunni hélt að þetta væri svona 15-20 tonn því grafan réð ekkert við þetta.“
Þá var brugðið á það ráð að slaka niður landfestatogi úr skipinu sem tókst að draga utan um sporðinn og þá gátu þeir dregið hann af með landfestaspilunum um borð í skipinu.
„Það var bara eitt híf og þá datt hann af. Hann er bara bundinn við bryggjuendann hjá okkur, þetta er svo þungt að við náum honum ekkert upp á bryggjuna. Við drógum hann bara fyrir endann á bryggjunni og bundum hann þar.“
Hafnarstarfsmenn hafa verið í sambandi við Landhelgisgæsluna, sem hefur verið í sambandi við Matvælastofnun og nú segir Rúnar að beðið sé eftir frekari fyrirmælum.
„Mér þykir trúlegt að gæslan dragi hann eitthvað út og sökkvi honum, hvernig sem það verður gert.“