Lögreglan telur líkur á því að netglæpamenn fylgist með póstsendingum sem fólk á von á eftir að hafa pantað sér varning á netinu. Reyna glæpamennirnir svo að innheimta lágt gjald í nafni sendingarfyrirtækis og bjóða heimsendingu t.a.m.
Þegar fólk gefur upp kortaupplýsingar nýta netþrjótarnir það til þess að taka út háar upphæðir.
Steinarr Kristján Ómarsson, lögreglufulltrúi á tölvurannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir lögreglu ekki hafa gallharðar sannanir fyrir því að netglæpamenn fylgist með póstsendingum. Hins vegar virðist sem þeir hafi upplýsingar um það þegar fólk á von á sendingum.
„Við höfum séð það hjá okkur sjálfum og hjá fólkinu í kringum okkur að ef þeir eiga von á sendingu þá er eins og svikin aukist um leið og þeir eiga sjálfir von á pakka. Við höfum ekki rannsakað þetta sérstaklega og því er þetta meira tilfinning á þessum tímapunkti,“ segir Steinarr.
Hins vegar segir hann það hlutverk lögreglu að geta í eyðurnar og að tilfinningin sé sú að netsvikarar hafi þennan háttinn á.
Til að vekja athygli á þessari tegund svika hefur Arion banki verið með herferð þar sem fólk er varað við svona svikum.
Einn þeirra sem lent hefur í svona glæp er söngvarinn Friðrik Ómar Hjörleifsson. Gaf hann upp kortaupplýsingar sínar þegar hann átti von á sendingu.
Steinarr segir svikin afar sannfærandi enda séu þau á góðri íslensku. Hann segir það alls ekki svo að einungis sé um að ræða erlenda netsvikara, heldur séu íslenskir netsvikarar einnig kræfir.
„Við erum ekkert betri en aðrar þjóðir. Íslenskir glæpamenn eru alveg jafn klárir og glæpamenn annarra þjóða,“ segir Steinarr. Hann segir hins vegar að enginn hafi verið dæmdur fyrir netsvik hér á landi. Helgast það ekki síst af því hve auðvelt er að fela slóð sína í svona málum.
„Í fæstum tilfellum er það sérstaklega menntað fólk sem stendur að baki þessum svikum. Fólk í dag borgar bara fyrir þjónustu. Annað hvort með því að fremja glæpinn fyrir þig eða með því að selja þér eitthvað forrit,“ segir Steinarr.
„Við vorum svolítið varin fyrir þessu erlenda þegar gjaldeyrishöftin voru hér en þegar þeim var aflétt þá vorum við svolítið værukær. Peningarnir eiga það til að fara mjög hratt úr landi,“ heldur hann áfram.
Hann segir það misskilning að hið litla málsvæði sem Ísland er verji landið á nokkurn hátt.
„Við sáum það að áður herjuðu netsvikarar svolítið á Finnland en þegar höftunum var aflétt þá sneru menn sér að Íslandi,“ segir Steinarr.