Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og Terra hafa hafið formlegt samstarf um markvissari úrgangsflokkun á íþróttaviðburðum, með sérstaka áherslu á Norðurálsmótið sem fram fer á Akranesi þessa vikuna og komandi helgi.
Markmiðið er að stuðla að hreinni og umhverfisvænni framkvæmd mótsins með bættri aðstöðu til flokkunar úrgangs, að því er kemur fram í tilkynningu.
Einnig verður flokkunarílát fyrir matarleifar staðsett í matsal Íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum, þar sem morgun-, hádegis- og kvöldverður er framreiddur. Þjálfarar, iðkendur og fararstjórar eru hvattir til að skila matarafgöngum í viðeigandi ílát. Allur úrgangur sem fellur til á mótinu verður vigtaður að því loknu. Það er sameiginlegt markmið mótshaldara og Terra að minnka hlutfall blandaðs úrgangs frá fyrri árum og skapa þannig fordæmi fyrir aðra viðburði.
„Eins og gengur og gerist þar sem fjöldi fólks kemur saman fellur til mikið magn úrgangs. Til að mæta þessari áskorun hafa ÍA og Terra fjölgað flokkunartunnum víða á svæðinu m.a. á íþróttasvæðum, tjaldsvæðum og skólum þar sem keppendur dvelja. Þar verður nú hægt að flokka úrgang í fjóra meginflokka: blandaðan úrgang, pappír, plast og skilagjaldsskyldar umbúðir,“ segir Erna Björk Häsler, markaðsstjóri Terra, í tilkynningunni.
Hún segir að þetta sé í fyrsta skipti sem óskað er eftir flokkun á úrgangi á íþróttaviðburði. „Hingað til hefur bara verið ein tunna þar sem allur úrgangur hefur farið í. Þetta eru mikil gleðitíðindi í okkar huga og við erum ákaflega stolt og ánægð að svara ákalli barna og foreldra. Ég á ekki von á öðru en fleiri íþróttafélög muni fylgja þessu fordæmi.“