Elliðaá var opnuð í morgun við hátíðlega athöfn og borgarstjóri gerði atlögu að krækja í fyrsta laxinn þrátt fyrir að hafa aldrei kastað flugu.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, segir það einstakt að tekist hafi að vernda laxveiðiá inni í miðri borg og telur það vera einstaka upplifun að kasta út í Elliðaá.
Myndast hefur sú hefð að borgarstjóri taki þátt í opnun Elliðaár og hefur hún haldist í 65 ár.
Að sögn Ragnheiðar Thorsteinsson, formanns Stangveiðifélags Reykjavíkur, er þetta fastur liður athafnarinnar.
Þá tók Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri virkan þátt þrátt fyrir enga reynslu af stangveiðum.
Þegar mbl.is náði tali af Heiðu var hún hvergi nærri hætt veiði en þá hafði hún reynt að hreppa fyrsta fiskinn í rúma eina og hálfa klukkustund.
„Þó að það komi ekkert á fyrsta klukkutímanum þá bjátar það ekkert á, þetta er greinilega sýnd veiði en ekki gefin,“ segir Ragnheiður létt á brún.
„Við erum hvergi nærri hætt, við hættum ekki fyrr en það er kominn fiskur,“ sagði borgarstjóri og bætti við að hún gæti vart hugsað sér betri stað til að hefja veiðiferilinn.
Þá sagði Ragnheiður stangveiði krefjast mikillar reynslu og sagði hún Heiðu hafa sýnt mikinn ákafa í að veiða fyrsta laxinn og taldi að með tíð og tíma myndi fyrsti fiskur Heiðu bíta á agnið.