Rúmlega tvítugur maður, Lúkas Geir Ingvarsson, sem er einn þeirra þriggja sem ákærðir eru fyrir að eiga þátt í dauða Hjörleifs Hauks Guðmundssonar, hafði ekki erindi sem erfiði þegar hann áfrýjaði öðrum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Landsréttur dæmdi hann í gær til sex mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar ásamt öðrum manni. Sá fékk fjórtán mánaða dóm en áfrýjaði ekki.
Lúkas Geir bar fyrir sig sjálfsvörn í málinu. Báðir mennirnir voru ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur.
Að því er fram kemur í dómi Landsréttar hófust átök þannig að brotaþoli í málinu veittist að Lúkasi Geir sem er sagður hafa sparkað í bringu mannsins þannig að hann féll og í framhaldinu hafi þeir tveir sem ákærðir voru í héraði haldið áfram atlögu sinni að manninum. Í átökunum höfuðkúpubrotnaði maðurinn auk þess sem bein brotnaði í andliti. Var hann metinn með 20% varanlega örorku eftir árásina.
Atvikið sem um ræðir gerðist fyrir framan veitingastað í Reykjavík. Bílaröð hafði myndast og Lúkas Geir fór út úr bíl aftarlega í röðinni. Hann gerði tilraun til að ræða við brotaþola sem virtist líka það illa og ýtti honum frá sér. Vinur mannsins sem varð fyrir árásinni tók hann þá traustataki og færði inn í bíl.
Maðurinn lét sér það ekki lynda, fór út úr bílnum og hljóp í áttina að Lúkasi Geir. Hann gekk í átt að manninum þar sem hann kom aðvífandi og sparkaði í bringu hans þannig að brotaþoli féll til jarðar. Þá eru Lúkas Geir og hinn maðurinn, sem einnig fékk dóm í héraði, sagðir hafa veist að manninum með spörkum sem beindust að höfði og efri hluta líkama.
„Í dómi Landsréttar kom fram að jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að A hefði haft í hyggju að ráðast á L yrði hvorki ráðið af myndupptöku né framburði vitna að stafað hefði slík hætta eða ógn af A að sú háttsemi L að sparka í brjóstkassa hans og ráðast áfram að honum eftir að hann féll til jarðar yrði metin honum til refsileysis á grundvelli neyðarvarnarsjónarmiða,“ segir í dómnum.
Stóð dómurinn því óhaggaður eða sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Einnig var Lúkasi Geir og hinum manninum gert að greiða brotaþola rúmar 2 milljónir króna í miskabætur.