Anna Karen Unnsteins þjóðfræðingur segir leyfilegt að klæðast þjóðbúningum á skapandi hátt. Til að mynda sé hægt að sauma buxur við upphlut.
Hán hélt í gær fyrirlestur um kynlausa þjóðbúninga.
Yfirskrift hans var Hvernig lítur þjóðbúningur framtíðarinnar út ef hann endurspeglar fjölbreytileika kynjanna og hinsegin veruleika?
Fyrirlesturinn var liður í Hinsegin hátíð á Norðurlandi eystra sem stendur yfir til sunnudags.
„Í fyrirlestrinum fjalla ég örstutt um sögu þjóðbúninganna og hvernig þeir þróuðust síðustu tvær aldir, til dæmis hvernig upphluturinn þróaðist og peysufötin og karlabúningurinn,“ segir Anna.
Það gefi grunninn fyrir hugmyndir háns um það hvernig hægt væri að gera kynlausan búning eða vera með kynusla í búningnum.
„Það eru oft miklar hugmyndir um að það séu einhverjar reglur eða lög um þjóðbúningana og að það megi ekki nota þá á einhvern ákveðinn hátt. Þetta er algengur misskilningur; það eru til hefðir en engar reglur um þennan fatnað.“
Því sé hægt að klæðast þjóðbúningnum á skapandi og óhefðbundinn hátt.
„Það er hægt að nýta þjóðbúninginn á alls konar máta, til dæmis er hægt að sauma buxur við upphlut og blanda mismunandi hlutum búninganna saman eða karlmaður getur klæðst hefðbundnum kvennabúningi.“
Anna segir fyrirlestrinum ætlað að opna á samtal um það hvernig kynlaus búningur kynni að líta út.
„Ég er ekki með neinar fastar hugmyndir um það hvernig svona búningur ætti að líta út, og þess vegna vil ég skapa samtal sem gæti orðið til þess að fleiri finni sig í svona búningum.“
Hefðin nái þannig til fleiri hópa samfélagsins.
Anna hefur verið í samstarfi við sænska listamanninn Fredy Clue og hélt með háni ráðstefnu á Íslandi í mars á síðasta ári.
„Fredy hannaði nýjan sænskan kynhlutlausan þjóðbúning sem tók innblástur frá gömlum búningum, bæði karla- og kvenna.“ Sá búningur sé í translitunum bleikum, bláum og hvítum til þess að hafa sýnilegan hinseginleika í búningnum.
Anna segir ýmislegt líkt með sænskum og íslenskum þjóðklæðum.
„Sænsku og íslensku búningarnir eru svipaðir að því leyti að þeir byggja á gömlum alþýðu- og sparifötum og voru teknir upp seinna til þess að tákna okkur sem þjóð og minna á fortíð landsins.“
Kynlaus íslenskur þjóðbúningur gæti þannig líkt og sá sænski tekið innblástur frá eldri búningum og blandað kynjuðum einkennum þeirra saman.