Tomasz Paweł Chrapek hefur verið skipaður nýr formaður innflytjendaráðs af Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. Tomasz fæddist í Częstochowa í Póllandi árið 1981 og hefur búið í Reykjavík frá árinu 2007, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Innflytjendaráð gegnir því hlutverki að vera félags- og húsnæðismálaráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málefnum innflytjenda og hafa eftirlit með framkvæmd hennar.
Ráðið á einnig að stuðla að samhæfingu og samráði milli ráðuneyta, sveitarfélaga og innan stjórnsýslunnar og stuðla að opnum umræðum um málefni innflytjenda með ráðstefnum ásamt fundum með hagsmunaaðilum og gera árlegar tillögur um áherslur og styrkveitingar úr þróunarsjóði innflytjendamála. Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að ráðið skuli skila ráðherra árlegri skýrslu um störf sín.
Tomasz er með meistaragráðu í tölvuverkfræði frá Tækniháskólanum í Częstochowa og meistaragráðu í félagsfræði frá Jan Długosz-akademíunni.
Hann hefur verið virkur í samfélagsmálum hér á landi um árabil, var meðstofnandi ProjektPolska.is og Pólska ljósmyndafélagsins á Íslandi (Pozytywni.is), sat í Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur frá 2014 til 2018 og gegndi formennsku í Fjölmenningarráði Reykjavíkur frá 2015 til 2018.
Árið 2019 kom Tomasz á fót vinnuhópnum sem stofnaði Veru, regnhlífarsamtök innflytjendafélaga á Íslandi. Árið 2023 stofnaði hann félagasamtökin Circa, sem vinna að félagslegri og umhverfislegri sjálfbærni.
Í dag starfar hann sem kerfissérfræðingur hjá netöryggisfyrirtækinu Varist.
Í innflytjendaráði sitja auk Tomaszar:
Hanna Guðmundsdóttir varaformaður, án tilnefningar, Arnar Sigurður Hauksson, tilnefndur af dómsmálaráðuneyti, Pétur Örn Pálmarsson, tilnefndur af heilbrigðisráðuneyti, Donata Honkowicz Bukowska, tilnefnd af mennta- og barnamálaráðuneyti, Helena N. Wolimbwa, tilnefnd af Reykjavíkurborg og María Ingibjörg Kristjánsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Fyrri formaður innflytjendaráðs var Paola Cardenas og þar áður Tatjana Latinovic.