Tveir handteknir með fíkniefni í sölupakkningum

Tveir menn voru hand­tekn­ir í gær­kvöld eða nótt í tveim­ur aðskild­um mál­um vegna ætlaðra fíkni­efna og fjár­muna sem fund­ust á þeim við al­mennt eft­ir­lit.

Ann­ar mann­anna tók á rás við af­skipti lög­reglu en náðist eft­ir snarpa eft­ir­för á fæti. Sá reynd­ist vera með nokkuð af ætluðum fíkni­efn­um í sölupakkn­ing­um og tölu­vert af fjár­mun­um.

Þetta er meðal þess sem fram kem­ur í til­kynn­ingu lög­reglu vegna verk­efna henn­ar frá klukk­an 17 í gær til klukk­an 5 í morg­un.

Ók nærri á sjálf­boðaliða

Lög­reglu var til­kynnt um bif­reið sem ekið var ógæti­lega og næst­um á sjálf­boðaliða við gæslu­störf í Miðnæt­ur­hlaupi Suzuki. Bif­reiðin fannst ekki þrátt fyr­ir leit lög­reglu.

Leigu­bíll vildi kom­ast fram úr lög­reglu

Lög­reglu­menn við al­mennt um­ferðareft­ir­lit urðu var­ir við að leigu­bíl var ekið nokkuð greitt fyr­ir aft­an þá og án þess að ökumaður tryggði nægi­legt bil milli öku­tækja. Ökumaður leigu­bíls­ins blikkaði háu ljós­un­um á lög­reglu og gaf til kynna að hann vildi kom­ast fram úr kom­ast fram úr.

Lög­reglu­menn könnuðu nán­ar ástand öku­manns­ins enda hegðun hans ekki í takt við það sem ætla má frá at­vinnu­bíl­stjóra. Má hann eiga von á sekt fyr­ir of hraðan akst­ur og fyr­ir að tryggja ekki nægi­legt bil milli öku­tækja, að því er seg­ir í til­kynn­ingu lög­reglu.

Alls voru 65 mál bókuð í kerf­um lög­reglu á tíma­bil­inu og tveir gista fanga­geymsl­ur lög­reglu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert