Fyrsta fjölbragðaglímufélag landsins hefur litið dagsins ljós. Félagið hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum með myndum og myndskeiðum af æfingum, þar sem skrautlegar grímur og mikilfengleg brögð eru í forgrunni.
Félagið ber nafnið Icelandic Combat Theatre (ICT) og var stofnað snemma árs en það er fyrsta fjölbragðaglímufélag Íslands.
Sex meðlimir eru í félaginu en stefnt er að því að stækka umfang ICT á komandi misserum.
Viktor Sigursveinsson, annar stofnenda Icelandic Combat Theatre, segir fjölbragðaglímu njóta vaxandi vinsælda hérlendis og sé ekki lengur feimnismál líkt og tíðkaðist.
Að sögn Viktors er fjölbragðaglíma stunduð með ólíkum hætti eftir löndum og félögum. ICT sækir innblástur sinn einkum til WWE, frægustu fjölbragðaglímusamtaka heims.
„Við erum í raun að gera brögð sem líta út fyrir að vera stórhættulegar árásir en við sleppum vel úr þeim.“
Þá segir Viktor fjölbragðaglímu krefjast mikillar samhæfingar og trausts, ICT æfir í hið minnsta einu sinni í viku.
Tveir meðlimir ICT hafa stundað nám í fjölbragðaglímu erlendis. Viktor hlaut einkakennslu í íþróttinni í Bretlandi árið 2011 í um þrjá mánuði, og síðar hóf Páll Sigurður Sigurðsson nám í fjölbragðaglímu við IPW-skólann í Englandi.
Þá segir Viktor fjölbragðaglímu hafa verið mikið feimnismál á árum áður en nú sé staðan önnur.
„Þetta fellur meira í kramið hjá fólki í dag. Fólk horfir mun meira á fjölbragðaglímu en áður fyrr.”
Vegna lítillar aðstöðu tekur félagið ekki við iðkendum, en Viktor segir þó stefnuna setta að fá stærra húsnæði og auka umfang félagsins.
ICT stefnir á að halda fyrstu opinberu fjölbragðaglímusýninguna í lok sumars. Þá segir Viktor áætlað að hafa fjölbragðaglímu í bland við lifandi rokktónlist, þar sem bardagar og tónlistarflutningur skiptist á yfir kvöldið.
Aðspurður um hvert markmið ICT sé segir Viktor frægð og frama ekki drauminn.
„Draumurinn er að fjölbragðaglíma sé til hérlendis. Það er allt annað til, en ekki fjölbragðaglíma.“
„Þetta er auðvitað svolítið spes íþrótt, ekkert eins og karate eða taekwondo. Við viljum koma með hana til landsins og sjá hvað úr verður,“ segir Viktor að lokum.