Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar seinni partinn í gær vegna vinnuslyss eftir að steypumót féll á starfsmann byggingafyrirtækis. Slysið átti sér stað á svæði lögreglustöðvar 4 sem sinnir Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ, að kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Á sama svæði var einstaklingur handtekinn grunaður um líkamsrárás, en hann hafði flúið af vettvangi. Málið er í til rannsóknar hjá lögreglu.
Þá handtók lögreglan einstakling í miðbæ Reykjavíkur sem ítrekað hafði verið til vandræða. Mat lögreglan það svo að viðkomandi þyrfti að gista í fangageymslu lögreglu þar til hann væri í ástandi til að vera á meðal almennings.
Lögreglan hafði einnig afskipti af fjölda ökumanna vegna ýmissa umferðarlagabrota. Einn þeirra sem var stöðvaður, grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna, reyndi að ljúga til nafns og reyndist sá hafa verið sviptur ökuréttindum. Var hann laus eftir sýnatöku,
Alls eru 60 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu frá því klukkan 17:00 í gær og til klukkan 05:00 í morgun. Fjórir gista í fangageymslu lögreglu.