Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, fyrrverandi matvælaráðherra, var viðstödd þegar um 60 grindhvalir syntu á land í Ólafsfirði fyrr í dag.
Hún segir fjölda hvala hafa verið gríðarlegan og að álíka atburður hafi ekki átt sér stað á Ólafsfirði í tæpa öld.
„Það er búið að vera alveg ótrúlegt að fylgjast með þessu. Björgunarsveitarliðar héðan, frá Siglufirði og frá Dalvík og sjálfboðaliðar, hafa verið að störfum og komið, að ég held, öllum hvölunum á flot,“ segir Bjarkey.
Hún segir að líklega hafi verið um 60 hvali að ræða; þar á meðal grindhvalakýr með kálfa. Á örskömmum tíma hafi verið búið að koma þeim út á fjörðinn.
„Nú er það bara spurning hvort við sjáum að þeir komist nógu djúpt til þess að rata aftur út á haf,“ segir hún.
Hún segir að nú sveimi bátar með torfunni til þess að tryggja að hún komist út á haf og syndi ekki aftur upp í fjöru.
„Við héldum að við værum að horfa upp á að þeir myndu allir liggja hér dauðir í fjörunni, en svo reyndist aldeilis ekki,“ segir Bjarkey.
Uppákomur sem þessar eru alls ekki algengar að sögn Bjarkeyjar, en hún segir eldra fólk í bænum reka minni í að hafa heyrt af landreka sem átti sér stað árið 1933.
Sú torfa sem þá rak á land hafi þó ekki verið jafn stór og sú sem rétt í þessu var bjargað. „Þessi fjöldi var gríðarlegur,“ segir Bjarkey.
Sigurður Ægisson, fréttaritari Morgunblaðsins og mbl.is á Siglufirði, náði myndbandi af björgunaraðgerðunum sem sjá má hér að neðan.