Sigríður Jóhannsdóttir, 56 ára Kópavogsbúi, sem leitað hefur verið að frá því um síðustu helgi, fannst heil á húfi skömmu eftir hádegi í dag. Var hún í kjölfarið færð á slysadeild til aðhlynningar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Eins og greint var frá í tilkynningu lögreglunnar í gær hafði leitarsvæðið verið stækkað og í dag lögðu leitarflokkar björgunarsveitanna áherslu á leit í Elliðaárdal/Elliðaár og austurhluta borgarinnar og fannst Sigríður á því svæði.
Formleg leit hófst að Sigríði þann 15. júní síðastliðinn, en þá hafði ekki sést til hennar frá því 13. júní.
Lögreglan þakkar öllum þeim sem tóku þátt í leitinni kærlega fyrir aðstoðina, þá ekki síst björgunarsveitunum.