„Samtökin telja að ríkisstjórnin hefði átt að gera áhrifamat á sveitarfélögin og ætli hún sér í þessar hækkanir verði það gert í þrepum,“ segir Íris Róbertsdóttir, formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið um hækkun á veiðigjöldum sem nú stendur fyrir dyrum í krafti frumvarps um breytingar á lögum um gjöld þessi.
Bendir Íris á að hækkunin sé veruleg og þar kreppi skórinn fyrst og fremst hjá sveitarfélögum á landsbyggðinni. „Við áttum okkur á því að ríkisstjórnin ætlar sér að fara í þessar hækkanir, en teljum að það væri mjög skynsamlegt að gera þetta í þrepum og meta áhrifin af hverju þrepi,“ heldur Íris áfram og bætir því við að fyrst og fremst sé það æskilegt að þeir sem um stjórnartaumana haldi átti sig á áhrifum hækkunarinnar á tekjustofna sveitarfélaga, á fjárfestingu og afleidd störf í sjávarútvegi.
„Þessi tregða við að deila gögnum þykir okkur bara skrýtin,“ segir formaðurinn, en eins og fjallað er um í blaðinu í dag birti stjórn samtakanna fundarbókun frá því á fimmtudaginn þar sem stjórnin lýsir furðu sinni á tregðu stjórnvalda við að veita aðgang að lykilgögnum sem varpa ljósi á raunveruleg áhrif veiðigjaldahækkunarinnar.
Aðspurð segir Íris viðbrögðin við málaleitan samtakanna þó hafa verið nokkur. Fulltrúar þeirra hafi rætt við atvinnuvegaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og töluvert af þingmönnum. „Við getum ekki kvartað yfir samtalinu við þessa ráðherra, staðan er bara þannig að þau eru ekki sammála okkar gagnrýni á vinnuna. Þau telja málið vel unnið og tilbúið til þess að ljúka því, en við teljum að meiri tíma þurfi til að fara ofan í áhrifin af breytingunni á sveitarfélögin sem treysta á sjávarútveg sem undirstöðuatvinnugrein,“ segir hún.
Skoða þurfi atvinnulífið á hverjum stað, málið snúist um meira en örfá stór sjávarútvegsfyrirtæki. „Þetta snýst líka um nýsköpun og næsta lag, sem eru fyrirtækin sem þjónusta sjávarútveginn, og svo er það verslun og þjónusta á þessum stöðum. Við hefðum viljað fá betri hljómgrunn hvað það varðar að staldra aðeins við og meta hlutina. Og ætli menn í svona miklar hækkanir, þá að gera það í þrepum,“ segir Íris Róbertsdóttir, formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, um yfirvofandi veiðigjaldahækkun.