Tregðan við að deila gögnum „ bara skrýtin“

Íris Róbertsdóttir, formaður samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Íris Róbertsdóttir, formaður samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Samsett mynd/

„Sam­tök­in telja að rík­is­stjórn­in hefði átt að gera áhrifamat á sveit­ar­fé­lög­in og ætli hún sér í þess­ar hækk­an­ir verði það gert í þrep­um,“ seg­ir Íris Ró­berts­dótt­ir, formaður Sam­taka sjáv­ar­út­vegs­sveit­ar­fé­laga og bæj­ar­stjóri í Vest­manna­eyj­um, í sam­tali við Morg­un­blaðið um hækk­un á veiðigjöld­um sem nú stend­ur fyr­ir dyr­um í krafti frum­varps um breyt­ing­ar á lög­um um gjöld þessi.

Bend­ir Íris á að hækk­un­in sé veru­leg og þar kreppi skór­inn fyrst og fremst hjá sveit­ar­fé­lög­um á lands­byggðinni. „Við átt­um okk­ur á því að rík­is­stjórn­in ætl­ar sér að fara í þess­ar hækk­an­ir, en telj­um að það væri mjög skyn­sam­legt að gera þetta í þrep­um og meta áhrif­in af hverju þrepi,“ held­ur Íris áfram og bæt­ir því við að fyrst og fremst sé það æski­legt að þeir sem um stjórn­artaum­ana haldi átti sig á áhrif­um hækk­un­ar­inn­ar á tekju­stofna sveit­ar­fé­laga, á fjár­fest­ingu og af­leidd störf í sjáv­ar­út­vegi.

„Þessi tregða við að deila gögn­um þykir okk­ur bara skrýt­in,“ seg­ir formaður­inn, en eins og fjallað er um í blaðinu í dag birti stjórn sam­tak­anna fund­ar­bók­un frá því á fimmtu­dag­inn þar sem stjórn­in lýs­ir furðu sinni á tregðu stjórn­valda við að veita aðgang að lyk­il­gögn­um sem varpa ljósi á raun­veru­leg áhrif veiðigjalda­hækk­un­ar­inn­ar.

Geta ekki kvartað yfir sam­tal­inu

Aðspurð seg­ir Íris viðbrögðin við mála­leit­an sam­tak­anna þó hafa verið nokk­ur. Full­trú­ar þeirra hafi rætt við at­vinnu­vegaráðherra, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra og tölu­vert af þing­mönn­um. „Við get­um ekki kvartað yfir sam­tal­inu við þessa ráðherra, staðan er bara þannig að þau eru ekki sam­mála okk­ar gagn­rýni á vinn­una. Þau telja málið vel unnið og til­búið til þess að ljúka því, en við telj­um að meiri tíma þurfi til að fara ofan í áhrif­in af breyt­ing­unni á sveit­ar­fé­lög­in sem treysta á sjáv­ar­út­veg sem und­ir­stöðuat­vinnu­grein,“ seg­ir hún.

Skoða þurfi at­vinnu­lífið á hverj­um stað, málið snú­ist um meira en örfá stór sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki. „Þetta snýst líka um ný­sköp­un og næsta lag, sem eru fyr­ir­tæk­in sem þjón­usta sjáv­ar­út­veg­inn, og svo er það versl­un og þjón­usta á þess­um stöðum. Við hefðum viljað fá betri hljóm­grunn hvað það varðar að staldra aðeins við og meta hlut­ina. Og ætli menn í svona mikl­ar hækk­an­ir, þá að gera það í þrep­um,“ seg­ir Íris Ró­berts­dótt­ir, formaður Sam­taka sjáv­ar­út­vegs­sveit­ar­fé­laga, um yf­ir­vof­andi veiðigjalda­hækk­un.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert