Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir Ísraelsmenn og Bandaríkjamenn hafa aukið stigmögnun með árásum sínum gegn Írönum, sem ógni stöðugleika á svæðinu. Aftur á móti hefði það ógnað heimfriðinum ef klerkastjórnin í Íran hefði náð að byggja kjarnorkuvopn.
„Ástandið í Mið-Austurlöndum er alvarlegt og sú stigmögnun sem átt hefur sér stað með loftárásum Ísraela og nú Bandaríkjanna ógnar stöðugleika langt út fyrir svæðið,“ skrifar Kristrún í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
Á síðustu dögum hafa Ísraelsmenn helst beint árásum sínum á kjarnorku- og hernaðarinnviði í Íran. Bandaríkin sprengdu í gærkvöldi á þremur stöðum í Íran, þar sem Íranar hafa kjarnorkustarfsemi sína.
„Það er ljóst að lausnin í málefnum Írans felst ekki í beitingu vopna. Það er því mikið áhyggjuefni að diplómatískar leiðir hafi ekki verið þrautreyndar áður en til þessara loftárása kom,“ skrifar Kristrún.
Hún segir íslensk stjórnvöld hvetja til stillingar milli stríðandi ríkja. Enn er ráðrúm að hennar mati til að setjast að samningaborði og leitast við að finna diplómatískar lausnir.
Ef stigmögnun haldi áfram þá verði það alltaf til þess að fleiri saklausir borgarar láti lífið.
„Framganga Írans og ásælni stjórnvalda í Teheran [klerkastjórnin] í kjarnavopn hefur verið slík á undanförnum árum að það væri augljóslega ógn við heimsfriðinn ef þeir næðu að þróa slík gereyðingarvopn. Þessi stefna Írans hefur vissulega grafið undan stöðugleika á svæðinu en að sama skapi leggjum við áherslu á mikilvægi þess að alþjóðalög séu virt,“ skrifar Kristrún og bætir við:
„Áframhald og frekari stigmögnun vopnaðra átaka munu bitna verst á almennum borgurum, bæði í Íran og Ísrael. Og á meðan þessu vindur fram falla hörmungarnar á Gasa í skuggann. Þar ríkir áfram algert neyðarástand sem bregðast verður við tafarlaust.“