Tiltrú á efnahagshorfum minnkar enn samkvæmt niðurstöðum könnunar Gallup meðal stærstu fyrirtækja. Fleiri telja að horfurnar á næstu sex mánuðum séu verri, að framboð á vinnuafli aukist áfram og að starfsmönnum fækki. Almennt er talið að verðbólga lækki áfram, en að það muni ganga hægt.
Þegar svör eru greind eftir atvinnugreinum er bersýnilegt að miklum mun meiri svartsýni gætir í sjávarútvegi en öðrum greinum.
Þetta eru niðurstöður í reglulegri könnun Gallup, sem birt er í dag. Hún er unnin í samstarfi við Samtök atvinnulífsins (SA) og Seðlabanka Íslands, og hefur verið gerð ársfjórðungslega frá árinu 2002.
Þegar spurt er um núverandi aðstæður í efnahagslífi eru viðhorfin nær óbreytt frá síðasta fjórðungi og léttara yfir mönnum en verðbólguvorið 2023, hvað þá ef litið er aftur til daga heimsfaraldurs.
Meiri uggs gætir þegar spurt er um horfur næstu sex mánuði. Bjartsýnin minnkar mjög merkjanlega þriðja ársfjórðunginn í röð. Svartsýnin eykst einnig talsvert, en ekki jafnmikið; fleiri telja efnahagshorfur óbreyttar.
Það má einnig merkja af því að æ fleiri telja auðvelt að finna vinnuafl og færri telja sig þurfa að bæta við fólki.
Ljóst er að atvinnurekendur hafa talsverða trú á innlendri eftirspurn, þótt hún réni raunar nokkuð. Hins vegar er bersýnilegt að áhyggjur af eftirspurn á erlendum mörkuðum er mikil. Vísitalan (200-0) um hana fellur úr 174 niður í 138 á milli fjórðunga. Hún er vissulega enn réttum megin við 100, en þar má ekki mikið breytast, hvort sem litið er til áhrifa heimsmála á olíuverð og ferðahug eða staðbundinna rekstrarskilyrða sjávarútvegs, ferðaþjónustu og orkufreks iðnaðar.
Afstaða fyrirtækja er nokkuð misjöfn eftir atvinnugreinum. Þannig eru byggingarverktakar brattari en aðrir um eftirspurn og þörf á auknu vinnuafli.
Það er hins vegar sjávarútvegurinn sem sker sig mjög úr að öllu leyti. Þar gerir enginn ráð fyrir að fjölga starfsfólki, þvert á móti sjá 33% fram á að fækka starfsfólki nokkuð og 6% að fækka því mikið.
Í sjávarútvegi telur 61% horfurnar verri næsta hálfa árið, 44% nokkru verri, en 17% miklu verri. Þar telur meira en helmingur að efnahagsástandið sé nú þegar slæmt.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.