Einstöku geimskoti með íslensk kannabisfræ innanborðs sem átti að eiga sér stað á laugardagskvöld hefur verið seinkað fram til kvöldsins í kvöld.
Þetta segir Meta Paherhik, stofnandi Greina rannsóknarseturs.
„Veðrið í Kaliforníu, þaðan sem flaugin átti að takast á loft, hefur verið sérstaklega slæmt síðustu daga,“ segir hún.
Áætluð tímasetningin flugtaksins er klukkan 21 í kvöld.
Geimferðin er söguleg að því leyti að þetta verður í fyrsta skipti sem tilraun verður gerð til þess að endurheimta plöntuvefi og fræ úr sporbaugi jarðar.
Meðal þeirra lífsýna sem eru um borð í SpaceX-flauginni Falcon 9, sem mun bera frægeyminn MayaSat-1 út í geim, eru íslensk hampfræ.
„Við getum ekkert gert nema að krossa fingur og vona að veður leyfi flugtak í kvöld,“ segir Paherhik.
Fylgjast má með geimskotinu í beinni útsendingu á YouTube hér: