Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir ákvarðanir varðandi framlög til varnar- og öryggismála, sem „undirstrika það sem lengi hefði mátt gera“, verða teknar á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem hefst á morgun í Haag í Hollandi.
Í samtali við mbl.is segist ráðherrann binda vonir við að úr fundinum komi enn samhentara, sterkara Atlantshafsbandalag, að samstaða bandalagsins við að berjast gegn þeirri ógn, bæði til skemmri og lengri tíma, sem felst í því hvernig Rússlandi er stjórnað sé skýr.
„Við þurfum að standa með Úkraínu, bæði fyrir Úkraínu sjálfa en ekki síður fyrir öryggi, frelsi og frið í Evrópu,“ segir Þorgerður.
Líkt og áður segir verða mikilvægar ákvarðanir teknar á fundinum varðandi framlög til varnar- og öryggismála, sem Þorgerður segir „undirstrika það sem lengi hefði mátt gera“.
Það er að Evrópa axli enn frekar ábyrgð á öryggi og vörnum í álfunni.
„Það er verið að fara upp í þetta 5% hlutfall af landsframleiðslu. Það er að segja 3,5% í hrein varnarframlög og síðan þetta 1,5% sem er verið að útfæra. Það verður hluti af fundinum og síðan því sem kemur í kjölfarið á fundinum,“ segir hún.
Spurð hvort útgjöld Íslands til varnar- og öryggismála hækki gerir Þorgerður greinarmun á varnarmálum og öryggismálum og segir:
„Já, varnartengd. Við megum ekki gleyma því að þegar Ísland varð stofnaðili að NATO árið 1949 þá var það öllum löndum og öðrum bandamönnum okkar ljóst að við erum herlaus þjóð og þar af leiðandi eiga þessi viðmið um framlög til hreinna og klárra hervarna ekki beint við um okkur.“
Engu að síður hafi Ísland aukið framlög og styrkt Úkraínu. Ísland uppfylli enn þær kröfur sem og varnarskuldbindingar sem gerðar voru á leiðtogafundinum í Washington á síðasta ári og metnaður sé fyrir því að halda áfram að vera öflugt þjónusturíki fyrir þær bandalagsþjóðir sem hingað koma og sinna loftrýmisgæslu og kafbátaleit.
„Við viljum vera framúrskarandi á því sviði, bæði í gegnum mannauð og aðstöðu. Þetta kallar á fjárfestingar, það hefur verið gert á umliðnum árum og það þurfum við að bæta og efla enn frekar.“
Þorgerður segir Ísland þegar vera komið af stað með þau varnartengdu útgjöld sem um ræðir. Hluti af því sé Landhelgisgæslan og starfsemi hennar, hluti af lögreglunni, vegamál, heilbrigðismál og ýmis innviðabygging sem þegar hefur átt sér stað.
„En við þurfum að gera betur og við þurfum að tryggja að þeir innviðir sem við ætlum að fara í að byggja upp geti líka tilheyrt því sem við viljum að falli undir varnir.“
Lykilatriðið segir hún vera að Ísland uppfylli þær kröfur og skuldbindingar sem NATO setur á herðar bandalagsþjóðum, „að þær fjárfestingar sem við förum í, hvort sem það er í hafnarmannvirkjum, vegamannvirkjum, innan heilbrigðiskerfisins, eða í annarri innviðauppbyggingu – að þær geti líka stuðlað að öryggi og vörnum landsins“.
Þannig segist Þorgerður binda vonir við að sú skylda sem hvílir á okkur, „ríkjum sem hafa verið rödd friðar, frelsis og lýðræðis“, verði til þess að þjóðir setjist við samningaborðið og að samningatæknin verði hluti af lausninni, en ekki hertæknin.
„Að við höldum áfram að undirstrika þá rödd okkar, þó að það séu mjög krefjandi tímar og mjög skrítnir tímar, átök í Úkraínu, hörmungarástand á Gasa, og núna síðast Ísrael/Íran átökin.“
Aðspurð segir Þorgerður ekki ólíklegt að árás Bandaríkjanna á Íran verði til umræðu á fundinum.
„Úkraína er fyrst og fremst á dagskrá fundarins, og ógnin sem stafar af Rússum, en það er mjög líklegt að þetta verði rætt, bæði formlega og óformlega.
Það er alveg ljóst að Íran og áætlun Írana að koma upp kjarnorkuvopnum hefur verið ógn við öryggi, bæði Mið-Austurlanda og heimsins, þannig að það var fyrst og fremst ástæðan fyrir því að bæði Ísraelar og Bandaríkjamenn réðust á Íran,“ segir hún.
Engu að síður sé það hlutverk okkar Íslendinga og annarra þjóða, sem eiga allt undir í alþjóðlegum lögum og að þau séu virt, að undirstrika að það beri að fara eftir alþjóðalögum og „það gildir líka um okkar góðu vini“.
„Það er alveg skýrt í mínum huga, og í hugum langflestra aðila, að það er töluverð og verulega mikil ógn af því að Íranar haldi áfram að þróa sig í átt að kjarnorkuvopnum, og það var einfaldlega verið að taka á því,“ segir Þorgerður, spurð álits á árás Bandaríkjanna á Íran.
Hún segir það aldrei gott þegar svona mál eru leyst með hernaði og árásum en mikilvægt sé að skilja hvað liggur að baki, þó það breyti því ekki að árásin hafi ekki verið besta leiðin til þess að minnka stigmögnunina á svæðinu.
„Þess þá heldur þurfa önnur ríki, bæði innan NATO og annars staðar í heiminum, að hvetja Írana til þess að setjast að samningaborðinu og koma með raunhæft plan um það hvernig þeir geti verið, og verði, án kjarnorkuvopna. Síðan getur heimsbyggðin líka komið til og skoðað ýmsan annars konar stuðning.
Þannig að þetta eru snúnir og krefjandi tímar en það losar okkur ekki frá því, hvar sem við erum stödd í forystu landa, að tala fyrir frelsi og tala fyrir friði, og heimurinn þarf á því að halda sem aldrei fyrr.“
Þorgerður bætir við að í öllum þessum árásum verði saklausir borgarar alltaf fórnarlömb og að „ef hægt er að sneiða fram hjá því með samningaviðræðum, með því að virða alþjóðalög, þá finnst mér að öllum ríkjum beri skylda til þess að fara þær leiðir, en ekki átakaleiðina“.