Konan sem féll við Svöðufoss á Snæfellsnesi er erlendur ferðamaður á fertugsaldri. Að sögn sjónvarvotta féll konan úr um fimm metra hæð. Fyrstu fregnir sem lögregla fékk voru þær að konan hefði lent í fossinum sjálfum en það reyndist ekki rétt við nánari athugun.
Ásmundur Kristinn Ásmundsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi segir konuna hafa verið eina á ferð en það hafi verið henni til happs að aðrir ferðamenn voru einnig við Svöðufoss þegar slysið varð.
„Konan var með meðvitund þegar hún var flutt á brott en fleiri upplýsingar höfum við ekki. Hún var alvarlega slösuð,“ segir Ásmundur.
Konan var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á bráðamóttöku.
„Þetta er vinsæll ferðamannastaður og án þess að við þekkjum það nákvæmlega í þessu tilviki hefur borið á því að ferðamenn fari af merktum gönguleiðum og komi sér í aðstæður sem eru hættulegar. Því miður er það að gerast allt of oft,“ segir Ásmundur.
Að sögn Ásmundar féll konan ekki í vatn. „Það er talað um að fallið hafi verið um fimm metrar. Fossinn er um tíu metrar. En þetta eru fyrstu fréttir. Það þarf að ræða við konuna til að fá nánari útlistun á þessu,“ segir Ásmundur.