Í dag má búast við norðaustan 5-13 metrum á sekúndu en hægari suðvestan til. Súld eða rigning verður með köflum en úrkomuminna sunnan- og vestanlands.
Það bætir í vætu sunnan- og vestan til á morgun en dregur úr úrkomu á Norður- og Austurlandi.
Hiti verður í bilinu 7 til 16 stig, svalast austanlands.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að skammt norðaustur af Færeyjum sé lægð og frá henni liggi lægðardrag til vesturs.
Þannig ráði norðaustlægar áttir ríkjum á landinu í dag. Yfirleitt verði stinningsgola eða kaldi en sums staðar strekkingur norðvestan til og við suðausturströndina.
Rigning og súld verði norðaustan og austanlands en annars yfirleitt skýjað og þurrt að kalla.
Á morgun dragi úr vætu fyrir austan en búast megi við dálítilli rigningu á Suður- og Vesturlandi.
Litlar breytingar verði á stöðu veðrakerfanna í kringum okkur fram yfir miðja viku og því megi búast við svipuðu veðri, austlægum áttum og víða vætu.