Framkvæmdir eru hafnar á flóðljósum Laugardalsvallar og því næst er stefnt að endurbótum á búningsklefum.
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, segir ekkert fast í hendi með stúkumál.
„Þetta fer eftir borg og ríki, við hefjum viðræður þar,“ segir Þorvaldur Örlygsson aðspurður.
Fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar, KSÍ og Frjálsíþróttasambands Íslands undirrituðu síðasta haust sameiginlega viljayfirlýsingu um þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal.
Þá vígði kvennalandsliðið nýtt gras á Laugardalsvelli í upphafi mánaðar. Var það fyrsta skref í framtíðaruppbyggingu vallarins.
Ráðist hefur verið í framkvæmdir á flóðljósum vallarins, þar sem við lagningu nýja grassins var völlurinn færður um átta metra. Unnið er að því að stilla ljósin með tilliti til nýrrar legu vallarins.
Að sögn Þorvaldar er stefnt á að framkvæmdum ljúki fyrir leiki Íslands í undankeppni HM í september. Því næst verður ráðist í endurbætur á búningsklefum vallarins, en Þorvaldur segir það nauðsynlega framkvæmd.
Ekki er búið að fjármagna endurbæturnar. Þess vegna segir Þorvaldur ótímabært að segja til um tímaramma á þeirri aðgerð, en hann vonast til að það verði sem fyrst.
Þorvaldur segir tíma og fjármagn ráða því hvernig framkvæmdum á nýjum og endurbættum stúkum Laugardalsvallar verði háttað.
„Það er ekkert komið fast í hendi í þeim efnum. Það er auðvitað í framtíðaráformum vallarins að bæta við norður- og suðurstúkum. Við erum í viðræðum við borg og ríki um þessi mál í framhaldinu,“ segir Þorvaldur jafnframt.