Atvinnuvegaráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Matvælastofnunar um að sekta sauðfjárbónda um 240 þúsund krónur fyrir að hafa haldið fé sitt á óöruggum túnum í Grindavík síðasta sumar og brjóta þar með gegn lögum um velferð dýra.
Þetta kemur fram í úrskurði frá atvinnuvegaráðuneytinu en í honum er forsaga málsins rakin.
Í maí á síðasta ári bárust MAST tvær ábendingar um sauðfé bóndans. Sú fyrri sneri að því að hann væri með sauðfé í Grindvík sem gengi laust um sprungusvæði og hafi farið um tún sem Almannavarnir höfðu flokkað hættulegt vegna stórrar sprungu.
Sú seinni sneri að því að girðingar bóndans væru í ólagi þar sem kindurnar hans væru komnar á tún í annarra manna eigu.
Fóru eftirlitsmenn MAST á vettvang og gerðu skoðunarskýrslu um málið.
Kom í ljós að girðingin utan um féð var ekki fjárheld þar sem hún byði upp á mikla slysahættu fyrir sauðfé sem væri ítrekað að festast í henni. Orsakaðist það af því að fiskinet var notað sem girðingarefni en fram kemur að eitt lamb hafi látist vegna þessa.
Vegna þess að girðingin var ekki fjárheld komst sauðfé einnig á svæði þar sem finna má sprungur en við eftirlit MAST voru tvær kindur utan girðingarinnar.
Farið var fram á að bóndinn flytti fé sitt úr Grindavík eigi síðar en 3. júní 2024 en ekkert varð úr því.
Bóndinn bauð MAST hins vegar að fylgja eftirlitsaðilum í skoðunarferð um túnið til þess að sýna að þar væru engar sprungur. Þá áréttaði stofnunin að þrátt fyrir að engar sprungur hafi verið á túninu hans þá væru sprungur í kringum túnið og girðingin væri ekki fjárheld þar sem kindur hans hefðu sést utan girðingarinnar.
Þá mun bóndinn hafa bent á að ein kind hefði ekki haldist innan girðingar en hún færi þó alltaf varlega yfir sprungurnar.
Starfsmönnum MAST virðist ekki hafa þótt mikið til þeirra röka koma því úr varð að stofnunin lagði 240 þúsund króna stjórnvaldssekt á bóndann sem að hann kærði til Atvinnuvegaráðuneytisins.
Í sjónarmiði bóndans í kærunni kom meðal annars fram að hann teldi sektarupphæðina of háa með tilliti til alvarleika ágreiningsatriða.
Þá áréttaði hann að hann hafi neyðst til þess að flytja sauðfé sitt til Grindavíkur á þessum tíma þar sem hann hefði aðeins fengið húsaskjól fyrir sauðfé í Reykjavík í takmarkaðan tíma og hafi, á þessum tímapunkti, orðið að losa það húsnæði enda sauðburður búinn.
Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði lagt dýrin í hættu með því að halda þeim í Grindavík við aðstæður sem lýst er í skoðanaskýrslum Matvælastofnunar og að stjórnsýsluákvörðunin að sekta bóndann hafi verið réttmæt.
Í ákvörðun ráðuneytisins kom sömuleiðis fram að ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að sektarfjárhæðin hafi verið ákveðin í samræmi við þær verklagsreglur sem stofnunin fylgir í stjórnvaldssektarmálum.